Gleymdi sér og smitaðist

Auður Helga Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur kom í gættina á heimili sínu …
Auður Helga Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur kom í gættina á heimili sínu á Ísafirði til að sitja fyrir á mynd. Halldór Sveinbjörnsson

„Ég get ekki verið alveg viss en mig grunar að ég hafi smitast eftir vakt á Bergi í síðustu viku. Ég sofnaði þá á verðinum eitt augnablik meðan ég var að fara úr og ganga frá búningnum mínum. Ég hugsaði strax með mér: Æ, þetta hefði ég ekki átt að gera! En það er gott að vera vitur eftir á.“

Þetta segir Auður Helga Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, en hún greindist með kórónuveiruna um síðustu helgi. Auður hefur unnið á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík frá því í byrjun mánaðarins vegna manneklu þar. Auður er með lítil sem engin einkenni en gerir sér grein fyrir því að hún gæti átt eftir að veikjast. 

„Þetta sýnir manni hvað það skiptir ofboðslega miklu máli fyrir okkur heilbrigðisstarfsfólk að vera varkár og halda einbeitingu. Gildir þá einu hvort við erum að koma örþreytt af langri vakt. Sem betur fer er ég eini starfsmaðurinn sem hefur smitast og vonandi verður það þannig áfram.“

Auður getur ekki útilokað að smitið hafi borið að með öðrum hætti en telur það þó mjög ólíklegt enda hafi hún lítið annað gert undanfarnar vikur en að vinna og vera heima hjá sér þess á milli.

Gefur sál sína í umönnunina

– Hvernig er andrúmsloftið á Bergi við þessar erfiðu aðstæður?

„Það er mjög gott miðað við aðstæður og ég er að vinna þarna með ótrúlegu fólki. Allir eru að gera sitt besta, hvort sem það eru vanir heilbrigðisstarfsmenn eða ungir krakkar úr bakvarðasveitinni sem aldrei áður hafa unnið við aðhlynningu. Það ganga allir í sömu áttina. Það hefur verið húmor og gleði á vöktunum milli þess sem við sinnum veiku fólki og algjör forréttindi að hafa fengið að vinna með þessum glæsilega hópi. Fólk hefur gefið sál sína í umönnunina.“

Að sögn Auðar er aðbúnaður góður á Bergi. „Á heildina litið er búið vel að okkur og ekki undan neinu að kvarta. En fólk hefur þurft að vinna mjög mikið; allt vana fólkið á hjúkrunarheimilinu datt út.“

Tveir heimilismenn af ellefu á Bergi hafa látist af völdum kórónuveirunnar sem Auður segir að vonum þyngra en tárum taki.

Hún segir vistmenn hafa tekið ástandinu af miklu æðruleysi en þeir hafa verið lokaðir af vikum saman. „Fólk tekur þessu ótrúlega vel og það er eins og fólk með heilabilunarsjúkdóma skilji þetta líka. Heimilismenn eiga orðu skilið.“

Nánar er rætt við Auði Helgu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »