Engum sagt upp um þessi mánaðamót

Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar
Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við sögðum ekki upp neinum starfsmanni um þessi mánaðamót en þurftum að segja tæplega 20 manns upp um þau síðustu. Við vonum að við þurfum ekki að gripa til frekari uppsagna,“ segir Steingrímur Birgisson forstjóri Bílaleigu Akureyrar.

Starfsfólk fyrirtækisins er um 250 talsins, um 200 þeirra eða 80% starfsmanna eru á hlutabótaleiðinni svokölluðu og eru í 25-75% starfshlutfalli. Laun allra hinna sem eru í stjórnunarstöðu voru lækkuð.

Fyrirtækið gat lítið nýtt sér aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þriðja aðgerðapakka sem kynntar voru í þessari viku. Ástæðan er sú að fyrirtækið hefur ekki verið með 75% tekjufall og gat ekki nýtt sér þau úrræði að losa sig undan greiðslu uppsagnarfrests starfsfólks, en við munum klárlega nýta starfshlutfallaleiðina áfram.

„Auðvitað vonar maður að það fari eitthvað í gang í sumar en það verður lítið eða ekkert um sumarráðningar,“ segir hann. 

Helsta verkefnið núna er að hætta við kaup á nýj­um bíl­um sök­um þess að út­lit er fyr­ir að ferðamanna­sum­arið verði ekki svip­ur hjá sjón miðað við fyrri ár.

Steingrímur reiknar með að bílarnir verði um 4.000 í stað um 5.000. „Við höfum átt gott samstarf við innflytjendur en eigum eftir að fá endanleg svör frá sumum. Við höfum náð að bakka út úr kaupum að hluta,“ segir hann. Samkomulag var um að kaupa 1.300 bíla en það er komið niður í um 900 bíla. 

Þrátt fyrir að bílaleiga sé í lágmarki þessa dagana þurfa bílaleigur að greiða þóknanir eða leyfisgjöld til sinna erlendu samstarfsaðila. Greidd eru bæði föst gjöld sem og veltutengd gjöld. „Við fáum engan afslátt af föstu gjöldunum en veltutengdu gjöldin eru eðlilega lægri.“  

Ferðamönnum hefur snarfækkað eftir að kórónuveiran lét á sér kræla.
Ferðamönnum hefur snarfækkað eftir að kórónuveiran lét á sér kræla. mbl.is/Björn Jóhann

Steingrímur vonar að ríkisstjórnin komi enn frekar til móts við bílaleigur með ívilnunum af vörugjöldum og bifreiðagjöldum. „Það er ósanngjarnt að við erum eina greinin sem þarf að greiða tolla af okkar atvinnutækjum,“ segir hann og vonar að hægt verði að koma til móts við fyrirtækin á þessum tíma.

Þrátt fyrir að um 80% af veltu fyrirtækisins sé hluti bílaleigunnar þá er stendur einnig bílasala, bifreiðaverkstæði og dekkjaþjónusta nokkuð sterk.  

„Með samstilltu átaki frábærs starfsfólks munum geta mokað okkur í gegnum þennan skafl líkt og alla hina sem við höfum komist í gegnum hingað til eins og hrunið, rof hringvegarins við Múlakvísl, gosið í Eyjafjallajökli og núna þetta,“ segir hann vongóður og áréttar að fyrirtækið sé margra áratuga gamalt og hefur því marga fjöruna sopið og með sterkar grunnstoðir.  

mbl.is