Kosið í Kringlunni í sumar

Fjórir nýir kjörstaðir verða nýttir í forsetakosningum í sumar, Vesturbæjarskóli, …
Fjórir nýir kjörstaðir verða nýttir í forsetakosningum í sumar, Vesturbæjarskóli, Breiðholtsskóli, Dalskóli og Borgarbókasafnið í Kringlunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag að fjölga kjörstöðum fyrir forsetakosningar í sumar um fjóra. Nýju kjörstaðirnir eru Vesturbæjarskóli, Breiðholtsskóli, Dalskóli og Borgarbókasafnið í Kringlunni. Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, greinir frá þessu á Facebook en fundargerð hefur ekki enn verið birt á heimasíðu Reykjavíkurborgar.

Fulltrúar meirihlutans, Sósíalistaflokksins og Flokks fólksins lögðu enn fremur fram bókun þar sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er hvattur til að gera íbúum höfuðborgarsvæðisins kleift að kjósa utan kjörfundar á fleiri stöðum en áður. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og áheyrnarfulltrúi Miðflokks studdu hins vegar tillöguna ekki. Athygli vakti í síðustu sveitarstjórnarkosningum að ekki var hægt að kjósa utan kjörfundar í Reykjavík heldur þurftu íbúar sveitarfélagsins að fara í Smáralind í Kópavogi. 

„Í síðustu kosningum ákvað sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu því miður að verða ekki við háværu ákalli um að fjölga kjörstöðum til að kjósa utan kjörfundar og var þá eingöngu hægt að kjósa í Smáralindinni. Var þetta sorglegt í því ljósi að undanfarin ár hefur verið aukning í kosningaþátttöku utan kjörfundar og því full ástæða til að koma til móts við þann áhuga,“ segir Dóra Björt á Facebook.

Kjörstaðir í Reykjavík í forsetakosningunum sem fram fara 27. júní, …
Kjörstaðir í Reykjavík í forsetakosningunum sem fram fara 27. júní, að því gefnu að fleiri en eitt framboð berist. Kort/Reykjavíkurborg
mbl.is