Ekki tíminn til að ýta undir sérhagsmuni

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

„Það er auðvitað mjög jákvætt að þau sjái að sér og endurgreiði og hætti hlutabótaleiðinni,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í samtali við mbl.is. 

Þrjú af að þeim fjórum fyrirtækjum sem gagnrýnd hafa verið fyrir að nýta sér hlutabótastarfsleið stjórnvalda en greitt sé arð á sama tíma hafa hætt að nýta sér úrræðið og ætla að endurgreiða Vinnumálastofnun allan kostnað. 

Stjórn BSRB sendi frá sér ályktun fyrr í dag þar sem mis­notk­un stönd­ugra fyr­ir­tækja á hluta­bóta­leiðinni og öðrum úrræðum stjórn­valda vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins var fordæmd harðlega. 

Vonast til að fleiri fyrirtæki fylgi í kjölfarið

„Hugsunin var auðvitað sú að þetta væri úrræði fyrir fyrirtæki í verulegum rekstrarvanda, þannig að heildarhagsmunir séu undir en ekki bara afmarkaður eða lítill hluti. Þess vegna vonumst við til að fleiri fyrirtæki fylgi í kjölfarið ef að þau hafa nýtt sér úrræðið en eiga ekki við verulegan rekstrarvanda að etja,“ segir Sonja. 

Hún segir jafnframt að fyrirtækin verði að hafa það í huga að það sé engin þolinmæði í samfélaginu fyrir að verið sé að nýta sameiginlega sjóði með þessum hætti. „Þetta er raunverulega jöfnunartæki þannig að allt þetta fjármagn sem er að fara út úr ríkissjóði núna gæti verið nýtt með öðrum hætti í opinbera þjónustu, heilbrigðiskerfið okkar eða jafnvel til að styðja við fólk í viðkvæmri stöðu. Þetta er ekki tíminn til að ýta undir sérhagsmuni og það er það sem blasir við þegar verið er að nýta sameiginlegu sjóðina með þessum hætti. Og á það verður aldrei fallist.“

Aðspurð um hvað BSRB vonist til að sjá í næsta aðgerðapakka stjórnvalda vegna efnahagslegra áhrifa kórónuveirufaraldursins nefnir Sonja hækkun atvinnuleysisbóta, örorkubóta og ellilífeyris frá almannatryggingum. 

„Það eru flestar þjóðir að fara þessa leið að horfa til þess að þegar þarf að treysta á eftirspurn í samfélaginu þá þarf að búa til kaupmátt fólks. Þannig að þetta er ekki bara mikilvægt fyrir einstaklinga heldur samfélagið allt.“

Ríkisstjórnin hefur ekki tilkynnt hvenær næstu aðgerðir verða kynntar en það kom skýrt fram í máli ráðherranna á síðasta blaðamannafundi að ráðist verður í frekari aðgerðir.

mbl.is