Frétt um bókhaldsmisferli „breytti engu“

Innlendir aðilar segja sárt að svo stórt markaðsverkefni verði flutt …
Innlendir aðilar segja sárt að svo stórt markaðsverkefni verði flutt úr landi. mbl.is/Þorgeir

Alþjóðlega auglýsingastofan M&C Saatchi stóðst allar hæfniskröfur útboðsgagna Ríkiskaupa vegna markaðsverkefnisins „Ísland — sam­an í sókn“ en verkefnið er hluti af efna­hagsaðgerðum stjórn­valda vegna COVID-19. 

Þetta kemur fram í skriflegu svari forstjóra Ríkiskaupa en tillaga M&C Saatchi hlaut hæstu ein­kunn val­nefnd­ar af inn­send­um til­boðum fyrir verkefnið en alls verður 1,5 milljörðum króna varið í það.

Íslandsstofa mun sjá um framkvæmdina en forstjóri stofnunarinnar sagðist ekki geta tjáð sig um málið og vísaði á Ríkiskaup.

Innlendir aðilar segja sárt að svo stórt verkefni verði flutt úr landi. Auk þess kom fram í Morgunblaðinu í dag að M&C Saatchi viðurkenndi bókhaldsmisferli í lok síðasta árs og hefur breska fjármálaráðuneytið hafið rannsókn á fyrirtækinu.

Ríkiskaupum ber skylda til að staðfesta að útilokunarástæður 68. gr. laga um opinber innkaup eigi ekki við um fyrirtæki áður en endanlegur samningur er gerður. Á þessari stundu er ekkert sem bendir til þess að um slíkt sé að ræða. Fyrirtækið stóðst allar hæfiskröfur útboðsgagna. Þess vegna breytti þessi frétt ekki neinu um valið,“ segir í svari Ríkiskaupa.

Þátttakandi eða bjóðandi sem hefur verið sakfelldur með endanlegum dómi fyrir eftirtalin afbrot skal útilokaður frá þátttöku í innkaupaferli:
    a. þátttöku í skipulögðum glæpasamtökum,
    b. spillingu,
    c. sviksemi,
    d. hryðjuverk eða brot sem tengjast hryðjuverkastarfsemi,
    e. peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka,
    f. barnaþrælkun eða annars konar mansal,“ segir í 68. grein laga um opinber innkaup.

Í svarinu segir enn fremur að lög um opinber innkaup byggi á þeirri forsendu að Ísland er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Því sé skylt að auglýsa útboð þar ef fjárhæðir fari yfir ákveðin viðmiðunarmörk.

Með þessum hætti hafa íslensk fyrirtæki einnig aðgang að útboðum um alla Evrópu. Þetta fyrirkomulag er til að auka hagvöxt á Evrópska efnahagssvæðinu og draga úr spillingu,“ segir í svari Ríkiskaupa.

mbl.is

Bloggað um fréttina