„Það var aldrei ætlun okkar að leyna neinu“

Í yfirlýsingunni segir að fyrirtækinu sé gefið frábært tækifæri til …
Í yfirlýsingunni segir að fyrirtækinu sé gefið frábært tækifæri til að styðja við okkar einstaka land. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það var aldrei ætlun okkar að leyna neinu hvað þetta varðar. Fjallað hefur verið um þetta mál nokkuð ítarlega í breskum og alþjóðlegum fjölmiðlum. Um er að ræða gamalt mál sem tengist eingöngu málefnum eignarhaldsfélagsins og ferlum þess við upplýsingagjöf sem skráð félag. Mikilvægt er að fram komi að félagið upplýsti um það að eigin frumkvæði.“ Þetta segir í yfirlýsingu frá alþjóðlegu auglýsingastofunni M&C Saatchi sem hlaut hæstu einkunn valnefndar af inn­send­um til­boðum fyr­ir markaðsverk­efnið „Ísland – sam­an í sókn“, en Morgunblaðið greindi frá því í dag að fyrirtækð hefði viðurkennt bókhaldsmisferli í lok síðasta árs og að breska fjármálaeftirlitið væri með fyrirtækið til rannsóknar.

Um er að ræða 11,6 millj­óna punda skekkju í bók­haldi fyr­ir­tæk­is­ins, eða sem nem­ur um tveim­ur millj­örðum króna. Í bók­haldi fyr­ir­tæk­is­ins hef­ur kostnaður við verk­efni verið van­met­inn, eign­ir rang­lega skráðar og verðmæti annarra eigna of­metið. Stjórn­end­ur fyr­ir­tæk­is­ins hafa viður­kennt að rang­færsl­ur í bók­hald­inu gætu náð um fimm ár aft­ur í tím­ann.

Maurice Sa­atchi, einn stofn­enda M&C Sa­atchi, og þrír aðrir stjórn­end­ur inn­an fyr­ir­tæk­is­ins sögðu störf­um sín­um laus­um eft­ir að upp komst um málið á síðasta ári.

Hluti af teymi auglýsingastofunnar fagnaði á Zoom þegar ljóst var …
Hluti af teymi auglýsingastofunnar fagnaði á Zoom þegar ljóst var að tillagan hefði orðið fyrir valinu. Ljósmynd/Aðsend

Í yfirlýsingu M&C Saatchi segir að í kjölfarið hafi umrætt vinnulag verið endurskoðað og nýr fjármálastjóri og algjörlega nýtt fjármálateymi hafi tekið við hjá eignarhaldsfélaginu. Enginn þeirra sem ábyrgð báru starfi þar lengur. „Málið hefur jafnframt engin áhrif haft á þau dótturfélög M&C Saatchi Group sem unnu að sigurtillögunni að komandi markaðsherferð íslenskrar ferðaþjónustu. Ekkert þessara dótturfyrirtækja og eða einstaklingar innan þeirra tengdust málinu sem fjallað er um í umræddri frétt Morgunblaðsins.“

Þá segir að fyrirtækinu sé gefið frábært tækifæri til að styðja við okkar einstaka land. „Hugmyndir og stefnumarkandi ráðgjöf er okkar aðalsmerki og þannig nálgumst við verkefnið fyrir Ísland. Við munum leggja okkur öll fram við að nýta þekkingu okkar og reynslu til að blása nýju lífi í íslenska ferða- og gistiþjónustu.“

Í skriflegu svari forstjóra Ríkiskaupa til mbl.is í dag segir að auglýsingastofan hafi staðist allar hæfniskröfur útboðsgagna Ríkiskaupa vegna verkefnisins. Þá sendi Íslandsstofa einnig frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem sagði að ekkert hefði komið fram um rannsókn fjármálaeftirlitsins í þeim gögnum sem M&C Saatchi skilaði inn.

Yfirlýsingin í heild sinni:

M&C Saatchi lýsir yfir mikilli ánægju með að fá að vinna að þessari herferð til að markaðssetja það dásamlega land sem Ísland er. Við undirbúninginn söfnuðum við saman okkar besta fólki frá fjölmörgum löndum, sérfræðinga á ólíkum sviðum. Því meira sem við unnum að tillögu okkar að herferðinni þeim mun sannfærðari urðum við um eftirfarandi: Í fyrsta lagi hversu einstakt og magnað landið sem þið eigið er og í öðru lagi hversu mikil forréttindi það eru að fá að taka þátt í að koma ferðaþjónustunni aftur á réttan kjöl til að styðja við alla Íslendinga.

Okkar tillaga reyndist hlutskörpust og við erum ákaflega stolt af þeirri staðreynd. Við höfum unnið að verkefninu í nánu samstarfi við íslensku auglýsingastofuna Peel, sem er órjúfanlegur hluti af sigurtillögunni.

Við höfum áður átt samstarf í sambærilegum verkefnum með stjórnvöldum í nokkrum ólíkum löndum (svo sem Nýja-Sjálandi, Bretlandi, Ástralíu og Bandaríkjunum), og með alþjóðasamtökum (svo sem Sameinuðu þjóðunum) auk þess sem við höfum unnið með mörkum heimsþekktum og virtum fyrirtækjum.

Við viljum gjarnan nota þetta tækifæri til að upplýsa nánar um tilefni þeirrar fréttar sem birtist í Morgunblaðinu dag um rannsókn á fjárhagslegum málefnum eignarhaldsfélagsins sem við tilheyrum.

Það var aldrei ætlan okkar að leyna neinu hvað þetta varðar. Fjallað hefur verið um þetta mál nokkuð ítarlega í breskum og alþjóðlegum fjölmiðlum. Um er að ræða gamalt mál sem tengist eingöngu málefnum eignarhaldsfélagsins og ferlum þess við upplýsingagjöf sem skráð félag. Mikilvægt er að fram komi að félagið upplýsti um það að eigin frumkvæði. Í kjölfarið hefur umrætt vinnulag verið endurskoðað og nýr fjármálastjóri og algjörlega nýtt fjármálateymi hafa tekið við hjá eignarhaldsfélaginu. Enginn þeirra sem ábyrgð báru starfa þar lengur. Málið hefur jafnframt engin áhrif haft á þau dótturfélög M&C Saatchi Group sem unnu að sigurtillögunni að komandi markaðsherferð íslenskrar ferðaþjónustu. Ekkert þessara dótturfyrirtækja og eða einstaklingar innan þeirra tengdust málinu sem fjallað er um í umræddri frétt Morgunblaðsins.

Okkur hefur verið gefið frábært tækifæri til að styðja við ykkar einstaka land. Hugmyndir og stefnumarkandi ráðgjöf er okkar aðalsmerki og þannig nálgumst við verkefnið fyrir Ísland. Við munum leggja okkur öll fram við að nýta þekkingu okkar og reynslu til að blása nýju lífi í íslenska ferða- og gistiþjónustu.

mbl.is