Bauhaus sektað vegna auglýsinga um verðvernd

Bauhaus var ekki talið geta fært sönnur á þær fullyrðingar …
Bauhaus var ekki talið geta fært sönnur á þær fullyrðingar sem komu fram í auglýsingum. mbl.is/Sigurður Unnar

Neytendastofa hefur sektað byggingarvöruverslunina Bauhaus um 500.000 krónur vegna brota á lögum um viðskiptahætti og markaðssetningu með auglýsingum um lægsta verð á markaði.

Húsasmiðjan kvartaði til Neytendastofu í febrúar vegna auglýsinga Bauhaus og fullyrðingarinnar „Hjá Bauhaus getur þú verið viss um að þú fáir alltaf lægsta verðið á markaðnum“. Var þar vísað til svokallaðrar verðverndar fyrirtækisins, en í henni felst að finni neytandi sömu vöru ódýrari hjá keppinauti lækki fyrirtækið verð sitt sem því nemur. Þurftu viðskiptavinir að færa sönnur á verðið með því að senda Bauhaus auglýsingu frá fyrirtæki þess efnis að verðið væri lægra.

Vegna verðverndarinnar auglýsti Bauhaus að fyrirtækið byði „lægsta verðið í landinu“ og „lægsta verðið í Reykjavík“. Í úrskurði Neytendastofu segir að ítrekað hafi komið fram áður að fyrirtæki geti ekki byggt sönnur fyrir fullyrðingum um besta, lægsta eða hagstæðasta verð á því einu og sér að fyrirtækið bjóði neytendum verðvernd. Til að setja fram slíkar fullyrðingar þurfi Bauhaus að leggja fram gögn til stuðnings fullyrðingunni. 

Það hafi Bauhaus ekki gert og teljist hún því ósönnuð og brjóti í bága við lög. Því hefur Bauhaus verið bannað að birta fullyrðinguna. Neytendastofa hefur áður úrskurðað um verðvernd Bauhaus árið 2012. Er það mat stofnunarinnar að auglýsingar Bauhaus brjóti gegn þeirri ákvörðun og af þeim sökum er fyrirtækið sektað um 500.000 krónur, sem greiðist í ríkissjóð. 

mbl.is