Af hverju fjölgaði um 133 í sóttkví?

Á þriðjudaginn fjölgaði einstaklingum í sóttkví um 133. Ástæðan var …
Á þriðjudaginn fjölgaði einstaklingum í sóttkví um 133. Ástæðan var ekki víðförull nýgreindur einstaklingur, heldur skipakomur og flugvéla-. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tölvísir hnykluðu brýnnar á þriðjudaginn þegar tala þeirra sem eru í sóttkví rauk á einum degi úr 564 í 697 eftir að hafa fækkað jafnt og þétt dag frá degi um hríð. Skýringin hendi næst væri sú að þarna hefði smitaður einstaklingur sent slíkan fjölda í sóttkví vegna návígis en svo er ekki.

Samkvæmt Ævari Pálma Pálmasyni, yfirmanni smitrakningarteymis sóttvarnayfirvalda, er skýringu á þessum aukna fjölda að takmörkuðu leyti að finna í ráðstöfunum vegna smitaðra einstaklinga en mun frekar að finna í komum hópa til landsins. 

Á nokkurra daga fresti eru farþegalistar frá komum flugvéla og skipa til landsins færðir inn í kerfið og stundum geta þeir samtals numið hundruðum. Þetta eru þá fyrst og fremst Íslendingar sem eru að koma heim en einnig erlendir ferðamenn sem þurfa að fara í sóttkví.

Hver og einn fyllir inn eyðublað frá WHO

Ferðir til landsins eru nokkrar og reglulegar þó að öllu jöfnu séu flugvélar og skip ekki þétt setin. Til að mynda komu 21 farþegi með Norrænu frá Færeyjum á miðvikudaginn, 13 af þeim Íslendingar. Norræna tekur anars 1.400 farþega. Á sama hátt hafa flugin hjá Icelandair verið fámenn.

Þeir sem lenda á Keflavíkurflugvelli fylla inn eyðublað og skila til fulltrúa yfirvalda á staðnum, en eyðublöðin eru frá WHO og greina frá sóttkvíarákvæðunum. Þessi fjöldi er síðan færður til bókar hjá embætti landlæknis. 

Einstaklingum í sóttkví er annars aftur að fjölga lítillega nú. Í gær, 14. maí, voru 681 í sóttkví en í dag 729. Orsökin mun vera sú sama. Að öðru leyti hefur fólki í sóttkví fækkað statt og stöðugt frá hápunkti faraldursins, þegar mest lét voru fleiri en 10.000 í sóttkví.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Kórónuveiran

28. maí 2020 kl. 13:00
3
virk
smit
1792
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir