Óvíst hvort einhver myndi fylla í skarð Icelandair

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.
Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Ef það verða einhverjar meiri háttar breytingar á rekstri Icelandair þá mun það hafa áhrif á ferðaþjónustuna. Sannarlega til skemmri tíma og jafnvel til lengri tíma líka,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri í samtali við mbl.is.

Skarphéðinn hefur áhyggjur af stöðu Icelandair og segir flugfélagið og leiðakerfi þess mjög mikilvægt fyrir uppbyggingu og þróun ferðaþjónustunnar hér á landi. Hann vill ekki ræða kjaradeilu Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair en fylgist vel með henni enda mikið undir.

Komið hefur fram að langtímakjarasamningar við flugstéttir sé forsenda fyrir því að hægt sé að ráðast í fjárhagslega endurskipulagningu Icelandair og að ljúka þurfi kjarasamningsgerð fyrir hluthafafund sem fer fram 22. maí. Icelandair hefur samið við bæði flugmenn og flugvirkja en ekki flugfreyjur.

Rúmast ekki innan hlutverks Ferðamálastofu

„Við höfum enga sérstaka skoðun á einstaka kjaradeilum og það rúmast ekki innan okkar hlutverks. En við á Ferðamálastofu höfum áhyggjur af stöðunni af því rekstrarafkoma Icelandair er ekki góð og félagið á í fjárhagslegum erfiðleikum. Við viljum hag þess fyrirtækis sem bestan því það er afar mikilvægt í íslenskri ferðaþjónustu,“ segir hann.

Hann telur ekki tímabært að fara að spá fyrir um hvað gerist ef áætlanir Icelandair um fjárhagslega endurskipulagningu ganga ekki eftir enda margir aðrir óvissuþættir sem hanga yfir ferðaþjónustunni. Sá stærsti sé þróun heimsfaraldurs kórónuveiru og ferðavilji fólks eftir að einstök ríki opna landamæri sín á nýjan leik.

Ýmislegt sem flækir stöðuna

„Það sem er að gerast núna er að einstök lönd eru að opna og við erum að opna en það er ýmislegt annað sem flækir stöðuna. Það er ekki bara Icelandair sem á í erfiðleikum heldur í raun öll flugfélög í heiminum,“ útskýrir hann og bætir við:

„Það er mjög líklegt að flugið eftir faraldur verði öðruvísi útlítandi en flugið fyrir faraldur. Svo vitum við ekkert hver ferðavilji fólks verður. Eitt er hver ferðavilji er innan þeirrar heimsálfu sem fólk býr í og annað hver ferðavilji fólks er á milli heimsálfa.“

Segir hann Íslands vera sérstakt að því leytinu til að um helmingur ferðamanna sem ferðist hingað komi frá löndum utan Evrópu. Það sé því tiltölulega hátt hlutfall ferðamanna sem fljúga langan veg til að komast hingað.

Óvíst hvort að einhver myndi fylla í skarðið

Spurður hvort erlend flugfélög gætu fyllt í skarð Icelandair ef allt færi á versta veg segir hann erfitt að segja til um það. Enginn aðili nema Icelandair hafi fyllt í það skarð sem myndaðist þegar WOW air hætti starfsemi.

„Það er ekkert sem endilega bendir til þess að einhver erlendur aðili myndi taka það upp að keyra leiðakerfi og tengiflug í gegnum Keflavík eins og Icelandair hefur gert, ef það yrðu einhverjar breytingar hjá Icelandair. Þannig að það er erfitt að álykta um að svo myndi verða,“ segir hann að lokum.

Hvorki náðist í forsvarsmenn Flugfreyjufélags Íslands né Icelandair við vinnslu fréttarinnar. Þá gat Þórhildur Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra ekki veitt viðtal þegar eftir því var leitað.

mbl.is