Sundlaugar opnaðar á miðnætti

Sundlaugar borgarinnar ljúka upp dyrum sínum á miðnætti.
Sundlaugar borgarinnar ljúka upp dyrum sínum á miðnætti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sundlaugar Reykjavíkurborgar verða opnaðar á ný á miðnætti, um leið og sundlaugarferðir verða heimilar að nýju.

Steinþór Einarsson, skrifstofustjóri rekstrar og þjónustu hjá ÍTR sem rekur sundlaugar borgarinnar, segir að ákvörðun um að opna laugarnar á miðnætti hafi verið tekin til að dreifa álaginu. „Það er auðvitað skemmtileg hugmynd og góð stemning að opna laugarnar á miðnætti en þetta er líka gert til að tryggja að ekki myndist biðraðir í fyrramálið.“

Steinþór segist eiga von á töluverðri umferð milli miðnættis og tvö í nótt og að gestum fjölgi aftur snemma í fyrramálið. „Margir fastakúnnar eru vanir að mæta á slaginu hálfsjö [þegar laugar eru opnaðar] en þeir gætu þá núna mætt fyrr til að forðast röðina,“ segir Steinþór.

Hámarksgestafjöldi í hverri laug verður miðaður við helming af því sem venjulega gildir og verður talið ofan í laugar. Laugunum verður skipt upp í svæði og mega að hámarki 50 manns vera á hverju þeirra. Steinþór segir að gestum verði treyst til að virða tveggja metra regluna og passa sjálfa sig og aðra. 

Þá verður fleira starfsfólk á vakt en venjulega enda þarf aukið eftirlit með laugargestum auk þess sem laugar verða þrifnar oftar og snertifletir sótthreinsaðir.

Fjöldatakmarkanir í laugarnar verða sem hér segir:

  • Vesturbæjarlaug 120 gestir samtímis.
    Aðeins tveir stærstu pottarnir verða opnir og sánaklefi lokaður
  • Breiðholtslaug 192 gestir samtímis
    Sánaklefar lokaðir
  • Grafarvogslaug 110 gestir samtímis
  • Laugardalslaug 350 gestir samtímis
  • Sundhöllin 120 gestir samtímis
  • Árbæjarlaug 120 gestir samtímis
mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið [email protected].

Stöndum saman