50.000 á hálfu ári algert hrun

„50.000 ferðamenn á sex mánuðum er náttúrulega bara algert hrun. Við getum þá áfram reynt að líta til þess hvernig innanlandsmarkaður tekur við sér en 50.000 manns er lítið líf inn í fyrirtækin,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, um að spá Seðlabankans geri ráð fyrir 50.000 ferðamönnum á Íslandi á síðari hluta ársins.

Þar með er gert ráð fyrir samtals um 400.000 ferðamönnum á árinu. Grunnspá Samtaka atvinnulífsins gerði ráð fyrir ámóta tölum en spá Íslandsbanka gerði þó ráð fyrir að samtals yrðu ferðamenn 750.000 á árinu. 

Spárnar eru því harla ólíkar og byggja á ólíkum forsendum, en taka ber fram að Seðlabankinn gerði þó ráð fyrir afléttingu sóttkvíarskyldu á landamærunum í sinni spá. Bankinn spáði því þrátt fyrir þær horfur að svona fáir kæmu til landsins.

Vonandi frekar tugþúsundir á mánuði en á margra mánuða tímabili

Til samanburðar við töluna 400.000 á einu ári bendir Jóhannes á að aðeins í ágúst í fyrra komu 250-300.000 til landsins. „Við vonumst mun frekar til þess að þetta fari nær einhverjum tugum þúsunda á mánuði frekar en slíkum fjölda á margra mánaða tímabili. Það eru enn bókanir hjá mörgum seinni hluta sumars og inn í haustið. Ef af þeim verður og fleiri bætast við sem koma vegna opnunarinnar 15. júní, þá verður einhver möguleiki á að bjarga því sem bjargað verður, ef svo má segja,“ segir hann.

Jóhannes Þór Skúlason, frkvstj. Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, frkvstj. Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann vonast til þess að það liggi fyrir sem allra fyrst hvernig útfærslan á nýja landamæraeftirlitinu verði, hver kostnaðurinn verði, hvaða lönd teljist öruggari en önnur og svo framvegis. Hann segir Samtök ferðaþjónustunnar ekki vera að þrýsta á eina eða aðra útfærslu, svo sem um hver borgi fyrir sýnatökuna, heldur leggi þau einfaldlega alla áherslu á að útfærslan liggi fyrir sem allra fyrst, svo að fólk sem sé á leiðinni hérna eftir tvær vikur í upphafi júní viti að hverju það sé að ganga.

Verkefnastjórn undir forystu Hildar Helgadóttur vinnur nú að tillögum um hvernig megi útfæra eftirlitið þegar nýju reglurnar um að hægt sé að fara í sýnatöku í stað sóttkvíar taki gildi, sem á að vera eigi síðar en 15. júní.

mbl.is