Enn byrjað á því að reka ræstingafólk

Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands.
Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands. mbl.is/Eggert

Áætlanir Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, um að segja upp ræstingafólki hjá stofnuninni vegna „skipulagsbreytinga“ og bjóða út ræstingar á starfsstöðvum í Vestmannaeyjum og á Selfossi, eru hefðbundnar að því leyti að ræstingafólk er rekið þegar skera á niður í rekstri.

Þetta er mat Starfsgreinasambands Íslands.

Þessir starfsmenn hafa undanfarnar vikur verið í framlínu þeirra sem barist hafa við farsóttina á heilbrigðisstofnunum um land allt. Ekkert smit hefur greinst á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og á ræstingafólkið stóran þátt í því, segir í yfirlýsingu Starfsgreinasambandsins.

Þakkirnar sem ræstingarfólkið fær er að vera sagt upp sínu starfi strax í kjölfarið. Það ætti að vera öllum ljóst eftir undangengnar vikur að sterkar stofnanir sem reknar eru með almannahagsmuni að leiðarljósi hafa skipt öllu máli,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni.

Starfsgreinasamband Íslands lýsir yfir fullum stuðningi við félagsmenn sína hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og mun beita afli sínu í þeim tilgangi að verja störf þeirra og réttindi.

mbl.is