Þurfti að vísa fólki frá

Sundlaugarnar halda helstu stórviðburðina í landinu um þessar mundir og …
Sundlaugarnar halda helstu stórviðburðina í landinu um þessar mundir og viðkvæði eiga við sem undir eðlilegum kringumstæðum eru viðhöfð um skemmtanabransann: Fullt út úr dyrum, röð út á götu og ekki komust allir að sem vildu. mbl.is/Snorri

Um hálftíuleytið í gærkvöldi þurfti að vísa fólki frá í Vesturbæjarlauginni, enda þótti sýnt að það kæmist ekki að fyrir lokun laugarinnar klukkan tíu. Á kvöldin eru enn raðir og sundþyrstir geta þurft að bíða í tæpan hálftíma, eins og undirritaður fékk að reyna í gær.

Anna Kristín Sigurðardóttir, forstöðumaður laugarinnar, segir að raðir hafi einkum verið að myndast á kvöldin þegar sólin skín. Það er, í gær og í fyrradag, enda opnuðu laugarnar ekki fyrr en á miðnætti aðfaranótt mánudags.

Klukkan 21.30 var stillt upp miða við hurðina þar sem sagði að ekki kæmust fleiri inn. Það var nýbúið að hleypa holli af fólki inn og ekki fararsnið á öðrum upp úr pottunum. „Þetta er smá leiðinlegt fyrir þá sem ætla að mæta á kvöldin en ég vona að það rýmki aðeins til þegar skólasundið hættir og við getum fært mörkin upp í 75% af leyfinu,“ segir hún.

Álagið ætti að verða bærilegt á miklum sólardögum

Þegar fólk fer að fara í sumarfrí fer álagið að sögn Önnu að dreifast yfir daginn, en ekki allir að koma eftir vinnu eða kvöldmat. Það, útvíkkað leyfi og að skólasundinu fari að ljúka, ætti samanlagt að draga úr álaginu þegar miklir sólardagar fara að láta sjá sig.

Sem stendur mega 120 vera í húsi samtals, en leyfið kveður á um 260 undir eðlilegum kringumstæðum. Ekki er hægt að fara alveg upp í helming þess, þar sem ekki allir klefar eru opnir enn um sinn.

mbl.is

Kórónuveiran

30. maí 2020 kl. 14:00
-1802
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir