Hætt við því að raðir í sund myndist í dag

Mikill fjöldi lagði leið sína í Laugardalslaug og aðrar laugar …
Mikill fjöldi lagði leið sína í Laugardalslaug og aðrar laugar landsins í vikunni. Eggert Jóhannesson

Veður í dag er með eindæmum gott á landsvísu og útlit fyrir að hiti fari upp í sautján stig á höfuðborgarsvæðinu. Steinþór Ein­ars­son­, skrif­stofu­stjóri hjá íþrótta- og tóm­stundaráði borg­ar­inn­ar, segir aðspurður að hætt sé við því að raðir myndist í sundlaugar borgarinnar í góða veðrinu en traffík í sundlaugarnar sé þó að komast í eðlilegt horf. 

Mánudaginn 1. júní mega sundlaugarnar taka á móti fleirum en nú eða 75% af leyfðum fjölda. 15. júní munu þær geta tekið á móti jafn mörgum og áður en takmarkanir sem fylgdu kórónuveirufaraldrinum voru settar á. 

Mest aðsókn í Laugardalslaug

Steinþór segir að vel hafi gengið hjá sundlaugum borgarinnar síðan þær voru opnaðar á mánudag. „Það er alveg búin að vera traffík og einhverjir hafa þurft að bíða en annars hefur þetta bara gengið mjög vel.“

Aðspurður segir Steinþór að aðsóknin sé mest í Laugardalslaug og mestar líkur á að fólk lendi í röð þar þó laugin megi taka á móti 350 manns á klukkustund. Hinar laugar borgarinnar mega taka á móti 115 manns eða fleirum á hverjum klukkutíma. Það þýðir þó ekki að fólk sé rekið upp úr eftir klukkustund í sundi.

Margir búnir að gleyma tveggja metra reglunni

Á mánudaginn opna líkamsræktarstöðvarnar og Steinþór segir að það gæti haft áhrif á aðsókn, sérstaklega hvað varðar sundlaugar sem eru tengdar við líkamsræktarstöðvar, eins og í Laugardal og Breiðholti. „Veðurspáin í næstu viku er reyndar ekki sérstök svo við sjáum hvað gerist.“

Steinþór segir að það komi alveg upp á að fólk brjóti tveggja metra regluna.

„Það virðist eins og margir séu algjörlega búnir að gleyma þessu, ekki bara í sundi heldur líka annars staðar. Við viljum aðallega að fólk taki tillit til annarra.“

Starfsfólk hefur þó ekki þurft að skerast í leikinn í sundlaugum borgarinnar vegna brota á nálægðartakmörkunum ekki nema með því að nota kallkerfið til að benda fólki á að virða tveggja metra regluna, að sögn Steinþórs.

mbl.is