Ákærð fyrir 117 milljóna skattabrot

Héraðssaksóknari gefur út ákæru í málinu.
Héraðssaksóknari gefur út ákæru í málinu. mbl.is/Ófeigur

Karlmaður á fertugsaldri og kona á fimmtugsaldri hafa verið ákærð af embætti héraðssaksóknara fyrir meiri háttar skattalagabrot með því að hafa komist hjá því að greiða skatta upp á 117 milljónir yfir eins og hálfs árs tímabil, en þá voru þau stjórnendur verktakafyrirtækis.

Samkvæmt ákæru málsins eru þau ákærð fyrir að hafa ekki staðið skil á 10,5 milljónum í virðisaukaskatt á árinu 2017. Þá er konan sögð ábyrg fyrir að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu upp á 61,9 milljónir á árunum 2016-2017. Maðurinn er hins vegar sagður ábyrgur fyrir að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu upp á 44,9 milljónir.

Fram kemur að maðurinn hafi verið skráður framkvæmdastjóri á tímabilinu, en konan daglegur stjórnandi og skráður stjórnarmaður.

Þau eru jafnframt ákærð fyrir peningaþvætti með því að hafa geymt eða nýtt ávinning af brotunum í eigin þágu eða þágu félagsins.

Málið var þingfest á mánudaginn.

mbl.is