Sameiginleg yfirlýsing um frestun Ólympíuleikanna

ÍÞRÓTTIR  | 24. mars | 22:37 
Alþjóða ólympíunefndin, IOC, og framkvæmdastjórn Ólympíuleikanna 2020 í Tókýó hafa gefið út sameiginlega yfirlýsingu um að leikunum verði frestað vegna kórónuveirunnar.

Alþjóða ólympíunefndin, IOC, og framkvæmdastjórn Ólympíuleikanna 2020 í Tókýó hafa gefið út sameiginlega yfirlýsingu um að leikunum verði frestað vegna kórónuveirunnar.

Í yfirlýsingunni segir að Thomas Bach forseti IOC og Shinzo Abe forsætisráðherra Japan hafi rætt málin í dag og farið yfir stöðugar breytingar á ástandinu vegna kórónuveirunnar og áhrif hennar á leikana í Tókýó 2020.

Leiðtogarnir  tveir hafi hrósað þeirri vinnu sem framkvæmdanefnd leikanna hafi lagt að baki og hversu vel  Japan hafi gengið í baráttunni gegn kórónuveirunni.

Hin fordæmalausa og óútreiknanlega útbreiðsla veirunnar hafi gjörbreytt aðstæðum um alla heimsbyggðina. Vegna þróunar mála og upplýsinga frá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni, WHO, í dag hafi forseti IOC og forsætisráðherra Japan komist að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að fresta leikunum, en ekki lengur en til sumarsins 2021, til að standa vörð um heilsu íþróttafólksins, allra sem kæmu að Ólympíuleiknum og alþjóðasamfélagsins.

Leiðtogarnir hafi verið sammála um að Ólympíuleikarnir gætu verið leiðarljós til heimsbyggðarinnar á þessum erfiðu tímum og að ólympíueldurinn gæti verið ljósið við enda hinna myrku ganga sem heimurinn gengi í gegnum um þessar mundir. Það hafi því verið samþykkt að ólympíueldurinn yrði um kyrrt í Japan, og að leikarnir og Ólympíumót fatlaðra, Paralympics, verði áfram kennt við Tókýó 2020.

Þættir