Vill að íbúar New York hylji vit sín

ERLENT  | 3. apríl | 0:27 
Bill de Blasio, borgarstjóri New York, hvetur alla íbúa borgarinnar til að hylja vit sín þegar þeir fara út úr húsi og eru nálægt öðru fólki, til að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar í borginni.

Bill de Blasio, borgarstjóri New York, hvetur alla íbúa borgarinnar til að hylja vit sín þegar þeir fara út úr húsi og eru nálægt öðru fólki, til að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar í borginni. AFP-fréttastofan greinir frá.

„Svo það sé á hreinu, hyljið vitin. Það er til dæmis hægt að gera með trefli. Eða einhverju sem þið útbúið sjálf. Það þarf ekki að nota grímur eins og fagfólk notar, eins og heilbrigðisstarfsfólkið okkar notar. Við viljum ekki að þið gerið það. Ekki nota þannig grímur,“ ítrekaði hann.

 

 

Innan Bandaríkjanna hafa langflest smit komið upp í New York, eða næstum 50 þúsund. Þá hafa 1.562 dauðsföll verið staðfest þar samkvæmt skrifstofu borgarstjóra. Í Bandaríkjunum öllum eru smitin orðin 242 þúsund og yfir 5.800 hafa látist.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði á blaðamannafundi í dag að hann ætlaði ekki að gera kröfu um að allir Bandaríkjamenn hefðu eitthvað fyrir vitum sér. Á fundinum kom jafnframt fram að grímur kæmu ekki í staðinn fyrir handþvott og félagsforðun. Þær gætu því veitt falska vörn.

Gavin Newsom, ríkisstjóri í Kaliforníu, hefur einnig mælt með því að fólk hylji vit sín í kringum aðra, en áréttaði þó að grímurnar kæmu ekki í staðinn fyrir félagsforðun eða það að halda sig einfaldlega heima.

Meira en þrír fjórðu Bandaríkjamanna búa nú við einhvers konar útgöngubann, þar á meðal íbúar New York sem hafa fengið fyrirmæli um að yfirgefa ekki heimili sín nema þeir nauðsynlega þurfi.

Þættir