Líftími síma og annarra tækja mun lengjast

Símar hafa í flestum tilfellum ekki mjög langan endingartíma.
Símar hafa í flestum tilfellum ekki mjög langan endingartíma. AFP

Ný reglugerð sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun kynna á næstunni gæti gert það að verkum að líftími algengra tækja og hluta, sem við notum dags daglega og endurnýjum reglulega, lengist til muna. BBC greinir frá.

Samkvæmt reglugerðinni verða framleiðendur að hanna og framleiða vöru þannig að hún endist lengur og auðveldara en áður verði að gera við hana. Reglugerðin mun meðal annars ná til farsíma, vefnaðarvöru, raftækja, rafhlaða og ýmiss konar umbúða. Ef henni verður fylgt ættu símar því að endast mun lengur en þeir hafa gert og það ætti að vera auðveldara að gera við þá, bili þeir.

Hugmyndin kemur upphaflega frá alþjóðlegri hreyfingu sem kallar sig the Right to Repair, sem haldið hefur nokkrar borgaralegar viðgerðarvinnustofur víða um Bretland. Reglugerðin mun að öllum líkindum líka ná til Bretlands líka, þrátt fyrir Brexit. Enda munu framleiðendur eflaust ekki sjá hag sinn í því að framleiða vörur sem endast skemur bara fyrir Bretlandsmarkað.

Markmiðið er að vörur verði almennt umhverfisvænni og getur það meðal annars þýtt að framleiðendur noti skrúfur í staðinn fyrir lím í einhverjum tilvikum til að auka endingu. Þá á þetta einnig að koma í veg fyrir að framleiðendur stíli inn á að vörur verði úreltar eftir ákveðinn tíma í þeim tilgangi að þröngva notendum til að kaupa nýjar.

mbl.is