Hægt verði að greina tugi tegunda krabbameins með blóðprófi

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Nú er hægt að greina fleiri en 50 tegundir krabbameins í fólki, jafnvel áður en einkenni koma fram, með einfaldri blóðprufu og prófi. Þetta segja vísindamenn frá Dana-Farber krabbameinsstofnuninni og Harvard-háskóla sem þróuðu prófið ásamt vísindamönnum frá Bretlandi.

BBC greinir frá.

Vonast er til þess að prófið geti nýst til að greina æxli fyrr í veikindaferlinu en þá skilar meðferð yfirleitt mestum árangri. Niðurstöður prófana benda til þess að prófið sýni rétta niðurstöðu í um 99% tilvika en ennþá er verið að kanna áreiðanleika þess enda mikilvægt að það veiti ekki falska niðurstöðu.

Áður en hægt verður að taka það í almenna notkun er frekari rannsókna þó þörf. Tilraunir benda til þess að prófið nýtist betur til að greina krabbamein á síðari stigum sjúkdómsins heldur en þegar æxli er að byrja að myndast.

Prófið greinir ákveðnar efnabreytingar í erfðamengi blóðsins sem verða þegar erfðaefni æxlis rennur þaðan í blóðstreymi einstaklings. Þegar hafa 4.000 blóðprufur verið teknar og rannsakaðar. Bæði úr fólki með krabbamein sem og án krabbameins.

Greinir rétta tegund í 96% tilvika

Fólkið með krabbamein var með ýmsar tegundir þ.á.m. ristilkrabbamein, lungnakrabbamein og krabbamein í eggjastokkum. Prófið er sagt hafa greint rétta tegund krabbameins í 96% tilvika.

Verkefnið er unnið af vísindamönnum frá Dana-Farber krabbameinsstofnuninni, Harvard-háskóla og vísindamönnum frá Francis Crick-stofnuninni og Háskólanum í London. Rannsóknin og þróunin er fjármögnuð af fyrirtækinu Grail sem býr til prófin.

Prófessor Geoff Oxnard, einn af þeim sem tekur þátt í verkefninu, segir að fyrstu prófanir bendi til þess að prófið hafi alla þá eiginleika sem það þarf að hafa svo hægt sé að hefja fjöldaskimanir á fólki.

„Það spyrja allir hvenær svona próf verður loksins tekið í notkun. Í ljósi bráðabirgðarannsókna hefur fengist leyfi til að hefja klínískar rannsóknir með prófið,“ bætir hann við.

mbl.is