Var veiran í Evrópu í desember?

Frá Champs Elysees í París á verkalýðsdaginn.
Frá Champs Elysees í París á verkalýðsdaginn. AFP

Kínversk yfirvöld tilkynntu fyrstu tilfelli kórónuveirunnar í desember. En var sjúkdómurinn þegar á kreiki víðar? Til að komast að því leita vísindamenn nú að fyrstu sjúklingum veirunnar með því að rekja þróun hennar sjálfrar.

Í Frakklandi fannst þyrping tilfella í síðari hluta janúar, en ný rannsókn sem birt er í vísindaritinu International Journal of Antimicrobial Agents gefur til kynna að veiran hafi þegar verið í landinu mánuði fyrr.

Grunur um fyrri smit í öðrum löndum

Af sýnum sem tekin voru úr fjórtán sjúklingum með flensuleg einkenni á gjörgæslu á tveimur sjúkrahúsum í París reyndist eitt jákvætt fyrir veirusmiti. Sýnið var úr 42 ára íbúa Frakklands sem ekki hafði heimsótt Kína. Sá var lagður inn á sjúkrahús 27. desember.

Á þeim tíma litu flestir enn á skyndilega fjölgun lungnabólgutilfella í kínversku borginni Wuhan sem fjarlægt vandamál. Enn hafði ekki verið tilkynnt um neitt tilfelli sjúkdómsins í Frakklandi og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafði enn ekki gefið honum nafnið Covid-19.

Í öðrum löndum hefur einnig verið grunur uppi um smit fyrir fyrstu staðfestu tilfellin. Krufningar í Kaliforníu hafa sýnt sýkingar fyrir fyrsta tilfellið þar, sem var staðfest 21. janúar.

mbl.is