Karlar í meiri hættu en konur

AFP

Fyrstu tölur um dauðsföll vegna veirunnar sem veldur COVID-19 bentu til þess að karlar væru í meiri hættu á að fá alvarlegan sjúkdóm en konur. Þetta virðist vera rétt, en ekki er vitað hvað veldur þessum mun á áhættu og hvort það er aðeins kynið sem hefur þar áhrif. Þetta kemur fram í svari Arnars Pálssonar, erfðafræðings við Háskóla Íslands, á Vísindavef Háskóla Íslands.

Veiran sem veldur COVID-19 breiðist mjög hratt út, gjarnan með mjög alvarlegum afleiðingum. Fólk er samt í mismikilli hættu á að veikjast illa og virðist sem margir þættir skipti þar máli. Undirliggjandi sjúkdómar, margir og misjafnir, virðast auka hættu á alvarlegri einkennum og dauða. Aldur er annar þáttur sem skiptir miklu máli en svo virðist sem dánartíðni sýktra aukist með aldri.

Í nýlegri breskri rannsókn var mat lagt á áhættuaukninguna. Rannsóknin kallast OpenSAFELY og í henni voru gögn um heilsu, aldur og fleira fyrir um 17 milljónir Englendinga greind í gegnum dulkóðaðar sjúkraskrár og síðan samþætt við lista um andlát af völdum COVID-19-veirunnar.

Matið byggir á dánartíðni á tímabilinu 1. febrúar 2020 til 25. apríl 2020. Miðað við aldurshópinn 50-60 ára var aukning á áhættu andláts meðal 60-70 ára áætluð tvöföld, hjá 70-80 ára var hún 4,8-föld og um 12,6-föld hjá fólki eldra en áttrætt. Þeir sem voru yngri en 50 ára voru síðan í minni áhættu. Einnig var lagt mat á hættu á andláti út frá kyni. Niðurstöðurnar meta hættuna á andláti sýktra karlmanna tvöfalda umfram konur. Margar aðrar rannsóknir og greiningar hafa gefið svipað mynstur í mismunandi löndum, þótt matið á áhættuaukningunni sé mismunandi, segir Arnar á Vísindavefnum.

Arnar segir að mögulega sé munurinn vegna ytri aðstæðna, umhverfis í sinni víðustu mynd, eða innri þátta, það er erfða og lífeðlisfræði. Eins gæti verið um samspil umhverfis og erfða að ræða. Margar tilgátur um mun á áhrifum veirunnar eftir kynjum snúast um ónæmiskerfið.

„Vera má að kynjamunurinn skýrist af félagslegum, menningarlegum eða atferlislegum þáttum að hluta. Margar mismunandi tilgátur hafa verið settar fram. Hittast karlar oftar utan heimilis? Eru þeir með viðkvæmari öndunarfæri vegna vinnuumhverfis eða lifnaðarhátta? Þvo þeir sér sjaldnar um hendur og sýkjast því af stærri skammti af veirunni? Reykja karlmenn aðeins meira en konur og einnig oftar?

Eðli málsins samkvæmt er mjög erfitt að meta þessa þætti, eins og umhverfisþætti almennt. Stóra áskorunin er að þættirnir skipta hundruðum og jafnvel þúsundum og mælingar á þeim eru mikilli óvissu háðar. Lífeðlisfræðilega eru konur og karlar þó ólík um marga þætti.

Margt er á huldu varðandi það hvernig veiran dregur fólk til dauða, það gæti tengst líffræði lungna, öndunarfæra og ónæmiskerfis. Flestir sérfræðingar telja að það síðastnefnda skipti mestu máli. Ein tilgáta er að ofvirkni í vissum hlutum ónæmiskerfisins geti stuðlað að bólgusvörun og líffærabilun.

Margar tilgátur um mun á áhrifum veirunnar eftir kynjum snúast einmitt um ónæmiskerfið. Ein er sú að mismunur í sterabúskap karla og kvenna geti haft ólík áhrif á ónæmiskerfið. Önnur tilgáta er að vegna þess að X-litningar bera gen sem tengjast ónæmiskerfinu séu konur betur varðar með sín tvö eintök af þeim litningi,“ segir Arnar í svari sínu á Vísindavef Háskóla Íslands en svarið er hægt að lesa í heild hér.

mbl.is

Kórónuveiran

2. júní 2020 kl. 16:26
2
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir