Þriðjungur alvarlega veikra fær blóðtappa

Afleiðingar COVID-19 geta meðal annars verið þær að blóð sjúklings …
Afleiðingar COVID-19 geta meðal annars verið þær að blóð sjúklings verður slímugra og hætt er við að þeir fái blóðtappa. AFP

Tæpur þriðjungur sjúklinga sem veikjast alvarlega af kórónuveirunni þróar með sér hættulega blóðtappa. Þetta er niðurstaða rannsakenda við King's College-spítalann í London og víðar. Þegar í mars, er kórónuveiran tók að breiðast út um heiminn af alvöru, fóru læknar að taka eftir fleiri sjúklingum með blóðtappa en venjulegt er. Blóðtappar eru taldir eiga sinn þátt í fjölda látinna úr veirunni. BBC greinir frá.

Roopen Arya, prófessor í blóðtappamyndun við King's College-spítalann, segir að eðlileg viðbrögð líkamans við lungnabólgu séu að blóðið breytist. Niðurstöður þeirra séu þær að það verði límkenndara. Afleiðingar þess séu víðtækari en bara blóðtappi. Líkur á slagi og hjartaáfalli aukist sömuleiðis. „Það er rétt að slímugt blóð veldur hærri dánartíðni sjúkdómsins.“

Til að bæta gráu ofan á svart hafa rannsóknir sýnt að blóðþynnir sem nú er notaður virkar ekki alltaf til að meðhöndla kórónuveirusjúklinga. Þá gangi ekki að stækka einfaldlega skammtinn af þynningarlyfinu þar sem það geti valdið meiriháttar blæðingum sem geta verið lífshættulegar.

Víðtækt samráð er nú haft milli landa um að finna öruggustu og skilvirkustu leiðina til að takast á við blóðtappa sem veiran veldur. Tilraunir eru í gangi til þess að finna staðlaða skammtastærð af blóðþynni til að nota um heim allan. Þá telja sumir vísindamenn að hægt sé að takast á við vandann á annan hátt: með því að draga úr bráðri lungnabólgu sem fylgir veirunni, en hún er orsök slímuga og þykka blóðsins.

mbl.is

Kórónuveiran

3. júní 2020 kl. 13:09
2
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir