Leirvogsá á lausu - aftur til Stangó?

Brúarhylur í Leirvogsá er einn gjöfulasti staðurinn í ánni. Nú …
Brúarhylur í Leirvogsá er einn gjöfulasti staðurinn í ánni. Nú er spurning hver tekur við keflinu af Lax-á? Morgunblaðið/Einar Falur

Leirvogsá, sem Lax-á ehf hefur verið með á leigu er á lausu. Árni Baldursson staðfesti í samtali við Sporðaköst að hann hefði nýtt sér ákvæði í samningi við Veiðifélag Leirvogsár og sagt sig frá leigunni. Lax-á hefur verið með Leirvogsá á leigu í þrjú ár og þann tíma segir Árni að áin hafi átt undir högg að sækja. „Það hafa verið vandræði með vatnsbúskap og áin verið vatnslaus. Þá hefur vantað fisk í hana og þetta hefur einfaldlega verið mjög erfitt þessi þrjú ár sem við vorum með hana á leigu.“

Þetta er þriðja vatnasvæðið sem Árni og Lax-á losa sig við á stuttum tíma. Fyrst var það Blanda þar sem Árni gekk út úr samningi þann 1. ágúst. Í gær sögðum við frá því að veiðileyfasalinn Roxtons hefði gengið inn í samning hans um Eystri-Rangá og keypt af félaginu veiðihúsið. Nú er það Leirvogsá. Árni sagði í samtali við Sporðaköst að hann hefð nýtt sér ákvæði í samningnum til að segja upp.

Heimildir Sporðakasta herma að SVFR, eða Stangaveiðifélag Reykjavíkur sé að ganga frá samningi um Leirvogsá og það á „gamla verðinu“ sem þýðir um 30% lækkun. Vonandi skilar sú lækkun sér til veiðimanna.

mbl.is