Brast á með mokveiði þegar hlýnaði

Ólafur Garðarsson með 86 sentímetra birting úr Eldvatni. Þetta er …
Ólafur Garðarsson með 86 sentímetra birting úr Eldvatni. Þetta er einn af þeim stærstu sem veiðst hafa í ánni í vor. Ljósmynd/VR

Eldvatnið í Meðallandi er að skríða í hundrað birtinga og verður það að teljast gott í ljósi aðstæðna framan af apríl sem var meira í ætt við vetur en vor. Nú þegar hlýnaði komst hreyfing á birtinginn og veiðin glæddist mjög mikið.

Þeir Valgarður Ragnarsson og Ólafur Garðarsson lönduðu sextán birtingum á tveimur dögum í Eldvatninu. Nánast allir þessir fiskar voru teknir á púpur. Sá stærsti var engin smásmíði eða 86 sentímetrar og veiddist hann í Þórðarvörðuhyl.

Valgarður Ragnarsson sleppir birtingi í Eldvatni. Skóflulíkur sporðurinn sendi góða …
Valgarður Ragnarsson sleppir birtingi í Eldvatni. Skóflulíkur sporðurinn sendi góða gusu upp í loftið. Ljósmynd/ÓRG

Þeir félagar luku veiðum á miðvikudag en eins og sjá má á rafrænu veiðibókinni, fyrir Eldvatn, á anglingiq.com var þar einnig góð veiði í gær og er heildarfjöldi sjóbirtinga kominn í 92 stykki. Þegar haft er í huga að færð og veður settu stórt strik í reikninginn er ljóst að Eldvatn er að standa undir nafni.

Aðstæður er nokkuð öðruvísi í Eldvatninu þetta vorið. Kunnugir telja að þetta sé allt um það bil tveimur vikum á eftir meðal vori.

Þetta er Elvar Friðriksson með 79 sentímetra sjóbirting úr Húseyjarkvísl. …
Þetta er Elvar Friðriksson með 79 sentímetra sjóbirting úr Húseyjarkvísl. Ummálið var 55 sentímetrar. Myndin tengist ekki fréttinni. Bara birtum hana hér því svona flottir birtingar eru sjaldséðir á vorin. Ljósmynd/Aðsend

Bestu veiðistaðirnir í Eldvatni í vor hafa verið Villi sem hefur gefið 21 birting og þar á eftir kemur Þórðarvörðuhylur með sautján birtinga. Stærsti fiskur til þessa er 89 sentímetra birtingur sem veiddist á Hundavaði.

mbl.is