Lönduðu 25 bleikjum í Ásgarði

Tómas Lorange Sigurðsson með spræka bleikju í Ásgarði. Þetta var …
Tómas Lorange Sigurðsson með spræka bleikju í Ásgarði. Þetta var ein af 25 sem þeir lönduðu. Ljósmynd/Aðsend

Þeir settu heldur heldur betur í hana, Tómas Lorange Sigurðsson og félagi hans í Soginu í gær. Þeir voru að veiða Ásgarðsland og settu þar í mikið magn af bleikju og lönduðu 25 og einum urriða.

„Við veiddum þetta allt á kopar púpu, ekki ósvipaða og Pheasant tail, en ég þekki ekki nafnið á henni. Þetta voru grannar tökur og þá er gott að vera með tökuvara. Allir fiskarnir sem við lönduðum voru með púpuna í trjónunni eða kjaftvikinu,“ sagði Tómas í samtali við Sporðaköst í gærkvöldi að afloknum veiðidegi.

Þetta er gamall fiskur, þegar bleikjan er orðin svona stór, …
Þetta er gamall fiskur, þegar bleikjan er orðin svona stór, og þeir félagar slepptu öllum fiski. Ljósmynd/Aðsend

Við slepptum þeim öllum. Þetta er gamall fiskur og maður vill ekki ganga á þennan stofn. Ég er viss um að það væri auðvelt að veiða þetta upp til agna ef menn væru að taka þetta með sér.“

Þeir félagar fengu einn urriða en annars var þetta allt bleikja á bilinu fjögur til sex pund. Tómas hefur veitt þarna margsinnis og stærsta bleikjan sem hann hefur fengið á Breiðunni, eins og staðurinn heitir í Ásgarði, var heil tíu pund. „Eitt vorið sem fórum þarna þá veiddum við tuttugu bleikjur og sú minnsta var 5,5 pund. Það er ótrúlega gaman að sjá hvað þessi fiskur er vel haldinn og frískur.“

Þeir reyndu allar hefðbundnar púpur eins og Krókinn og fleira en það var ekki fyrr en þeir tóku þessa koparlituðu að bleikjan gaf sig. Hún er dyntótt eins og flestir veiðimenn þekkja. Svæðið í Ásgarði er opið fyrir bleikjuveiði fram til 20. júní en þá tekur við tíu daga hlé áður en laxveiðitímabilið hefst. Á móti Ásgarði er Bíldsfell en þar er ekki í boði vorveiði.

Einn urriði bættist í hópinn. Annars var þetta allt bleikja …
Einn urriði bættist í hópinn. Annars var þetta allt bleikja á púpur og tökuvara. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is