Hugsaðu um vöðlurnar - Simms vikan

Það er Simms vika í Veiðihorninu í Síðumúla þessa vikuna. Áherslan er á vöðlur og vöðluviðgerðir. Sérfræðingar frá veiðivöruframleiðandanum Simms hafa komið til Íslands síðustu ár og boðið upp á fræðslu og vöðluviðgerðir á eldri gerðum af Simmsvöðlum.

Myndbandið sem fylgir með fréttinni var tekið í fyrra þegar sérfræðingar Simms komu til íslands. Þar má finna svar við mörgum spurningum um geymslu og umgengni á vöðlum.

Nú er ekki flogið út af Covid 19 og þá tekur starfsfólk Veiðihornsins keflið. Viðskiptavinum stendur til boða að koma með eldri vöðlur og fá þær yfirhalningu.

„Þetta hefur líkað ákaflega vel hjá okkur og reglurnar eru einfaldar. Við gerum bara við Gore-tex vöðlur. Hver viðskiptavinur má koma með eitt par og allar vöðlur þurfa að vera hreinar. Þá er mikilvægt að vöðlurnar séu merktar,“ sagði Ólafur Vigfússon í samtali við Sporðaköst, seint í gærkvöldi en þá var enn verið að gera við vöðlur. Hann bendir á að ef um smávægilegar bilanir sé að ræða þá geri þau við en aðrar vöðlur eru sendar á Gore-tex verkstæði Simms í Evrópu.

Hluti af þeim vöðlum sem bárust til viðgerða í gær …
Hluti af þeim vöðlum sem bárust til viðgerða í gær í Síðumúlanum í gær. Ljósmynd/Veiðihornið

„Viðskiptavinir eru þakklátir og það finnst okkur dýrmætt. Við leiðbeinum líka hvernig á að geyma vöðlur, bæði eftir veiðiferð og yfir veturinn,“ sagði Óli ennfremur.

Vanalega hafa Simms dagar verið um helgi en í ljósi þess hversu góð aðsókn hefur verið þá var ákveðið að lengja viðburðinn í viku. Það er fyrst og fremst gert svo að hægt sé að virða sóttvarnarreglur en um leið að tryggja að sem flestir komist að.

mbl.is