Ný veiðisvæði komin í almenna sölu

Hallgrímur H. Gunnarsson með 92 cm hrygnu sem hann veiddi …
Hallgrímur H. Gunnarsson með 92 cm hrygnu sem hann veiddi í fyrra í ármótum Þverár og Hvítár í Borgarfirði. Ármótasvæðin í Hvítá eru spennandi kostur, sérstaklega framan af sumri. Óttar Finnsson

Nokkur ný veiðisvæði eru komin í almenna sölu sem áður hafa verið nýtt af lokuðum hópi leigutaka. Þannig má fyrst nefna veiðisvæðið sem kennt er við Skugga og er fyrir landi Hvítárvalla í Borgafirði. Hreggnasi ehf. er ný leigutaki svæðisins. Svæðið nær frá gömlu Hvítárbrunni og upp að ármótum Grímsár, en Hreggnasi er einmitt með Grímsána á leigu.

Veiði hefst á Skuggasvæðinu eftir aðeins níu daga eða 20. maí og stendur fram til 20. september. Veitt er á tvær til fjórar stangir á svæðinu. Einungis er leyfð fluguveiði og er kvóti á hverja dagsstöng 2 smálaxar.

Veiðileyfavefurinn veida.is hefur bætt nýjum og spennandi silungasvæðum í sína flóru. Þannig eru veiðisvæði Skálholts í Hvítá og Brúará nú komin í almenna sölu á vefnum en fram til þessa hafa þessi svæði verið í einkanýtingu. Þar af leiðandi er ekki mikið af gögnum til um veiði á svæðinu eða veiðitölur. Þetta er veiðileyfi á góðu verði og verður spennandi að sjá hvað gerist þarna í sumar.

Þá opnaði veida.is fyrir sölu á veiðileyfum í Efri-Haukadalsá í gær, en það er lítil og nett á með góðri bleikjuveiði og þar gengur lax þegar líður á sumarið. Alger sleppiskylda er á laxi í ánni og er það í takt við fiskræktarátak sem leigutakar eru að fara í í samráði við landeigendur. Veitt er á tvær stangir í Efri-Haukadalsá.

mbl.is