Góðar vísbendingar um smálaxagöngur

Fyrsti laxinn úr Norðurá í fyrra. Margir bíða spenntir eftir …
Fyrsti laxinn úr Norðurá í fyrra. Margir bíða spenntir eftir að sjá hvað gerist í opnuninni þar núna. ÞGÞ

Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar á Vesturlandi telja góðar vísbendingar um góðar smálaxagöngur í sumar. Þeir Sigurður Már Einarsson og Jóhannes Guðbrandsson fiskifræðingar settust í spádómssætin, eins og þeir kalla það, og horfðu á þau gögn og vísbendingar sem fyrir liggja um komandi laxveiðisumar.

„Miðað við yfirborðshita sjávar sumarið 2019 og þau tengsl sem hafa komið fram við laxgengd eru góðar vísbendingar um að von geti verið á góðum smálaxagöngum í ár á sunnan- og vestanverðu landinu á komandi sumri en stangveiðar á laxi í þessum landshluta eru yfirleitt um 40% af heildarveiði náttúrulegra laxastofna á landinu,“ segir í frétt sem birtist á vefsíðu Hafrannsóknastofnunar.

Eins og gefur að skilja benda þeir félagar á að margar breytur kunni að hafa áhrif. Í fréttinni segir einnig: „Hér er eingöngu unnið með tengsl sjávarhita við laxveiði ári síðar en mjög áhugavert væri að gera spálíkan þar sem fleiri breytur væru notaðar sem tengjast seiðaframleiðslu ánna og frumframleiðni sjávar. Loftslagsbreytingar eru ekki einungis að hafa áhrif á hitastig sjávar en breytingar á seltu, sýrustigi og hafstraumum geta einnig haft mikil áhrif á lífríkið. Erfitt getur verið að spá fyrir um áhrif umhverfisþátta þegar gildi sem ekki hafa sést áður koma fram. Hér er eingöngu unnið með gögn sem tengjast veiði á Vesturlandi en mjög áhugavert væri einnig að hefja rannsóknir á slíku sambandi í öðrum landshlutum, sérstaklega Norður-og Austurlandi.“

Fyrir veiðimenn er það setningin „góðar vísbendingar um að von geti verið á góðum smálaxagöngum í ár á sunnan- og vestanverðu landinu...“, sem skiptir öllu máli. Svo er bara að krossa fingur og vona það besta. Það stefnir í nóg af vatni og jafnvel fiski. Nú gæti farið svo að vantaði bara veiðimenn.

mbl.is