Fyrsta alvöru urriða skotið í Laxá

Gylfi Kristjánsson búinn að setja í hann á efri Ferjubreiðu. …
Gylfi Kristjánsson búinn að setja í hann á efri Ferjubreiðu. Þeir lentu heldur betur í bingói. Ljósmynd/Aðsend

Þrír félagar lönduðu 33 urriðum og misstu marga í Presthvammi í Laxá í Aðaldal í gær. Þetta voru þeir Gylfi Kristjánsson, Sólon Arnar Kristjánsson og Guðjón Rafn Steinsson. Hörkuveiðimenn og þeir fyrstu sem Sporðaköst heyra af sem lenda í alvöru skoti í urriðanum í Laxá. Þetta voru flottir fiskar á bilinu 45 - 63 sentímetrar.

Presthvammur er rétt neðan við Laxárvirkjun og þeir gerðu nánast alla veiðina á Ferjubreiðu þar sem Laxá kemur út úr gljúfrunum.

Guðjón Rafn Steinsson með einn af mörgum urriðum sem þeir …
Guðjón Rafn Steinsson með einn af mörgum urriðum sem þeir félagar lönduðu í Presthvammi í gær. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var algjört bingó bara. Við erum búnir að fara nokkrum sinnum í Laxá í vor og höfum prófað Árbótarsvæðið og Presthvamminn. Þetta er búið að vera mjög rólegt. Áin köld og virkilega vatnsmikil. Við keyptum okkur fyrri vaktina bara í gærmorgun. Svo um leið og við komum þá vorum við í mokveiði. Tveir settu í hann í fyrsta kasti. Þannig að klukkan 9 um morguninn keyptum við líka seinni vaktina, þegar við sáum í hvað stefndi,“ sagði Gylfi í samtali við Sporðaköst. Hann á ekki langt að sækja veiðiáhugann. Pabbi hans Kristján Gylfason er dugnaðar veiðimaður og Flestir þekkja afa og alnafna hans, Gylfa Kristjánsson sem er látinn. En Gylfi eldri hannaði margar af bestu silungaflugum sem notaðar eru í dag.

Sólon Arnar með bolta urriða. Þeir voru að taka púpur …
Sólon Arnar með bolta urriða. Þeir voru að taka púpur í ýmsum útfærslnum. Ljósmynd/Aðsend

„Við lönduðum þarna yfir þrjátíu fiskum og misstum slatta, allt á Ferjubreiðu efri. Svo þegar kom fram á miðjan dag vorum við orðnir kaldir og sáttir og hættum eftir sjö tíma veiði. Takan var samt enn til staðar. Þarna hefði verið hægt að veiða enn meira.“

Hvaða flugur var hann að taka?

„Það var Krókur, Beykir, Mýsla, Pheasant Tail, Mobutu og Blóðormur.“

Nú yrði afi þinn ánægður með þig. Hann jánkar því enda þær fyrstu þrjár sem hann nefndi allar hannaðar af Gylfa afa.

Gylfi telur hluta af skýringunni vera að ekki hefur verið …
Gylfi telur hluta af skýringunni vera að ekki hefur verið fært að vaða út á Ferjubreiðuna fyrr en nú þegar Laxá hefur aðeins sjatnað. Ljósmynd/Aðsend

Hefurðu einhverja skýringu á af hverju þetta kom núna?

Gylfi telur það geta verið nokkur atriði. Vatnshitinn var kominn í sjö gráður og stöku fluga sást og voru uppítökur. Þá hafði áin minnkað nokkuð og þeir gátu vaðið nægilega langt út í flóann. „Ég hugsa að við höfum verið þeir fyrstu til að kasta á þessa fiska. Báturinn er ekki kominn að ánni og það hefur sennilega ekki verið hægt að vaða þetta fyrr í vor. Það var alveg tæpt að vaða þetta og einn sími blotnaði.“

mbl.is