Kýs að fá kórónuveiruna á Íslandi

Hótelið sem Ómar og fjölskylda hans voru á var í …
Hótelið sem Ómar og fjölskylda hans voru á var í einum til tveggja kílómetra fjarlægð frá hótelinu H10 Costa Adej Palace þar sem kórónusmit fannst. Gestir hótelsins eru nú í sóttkví á hótelinu, þar á meðal tíu Íslendingar. Ljósmynd/AFP/Aðsend

Ómar Valdimarsson lögfræðingur segir óhjákvæmilegt að allir muni fá kórónuveiruna en segist kjósa það að fá hana heldur á Íslandi. Hann reynir nú eftir bestu getu að koma sér og fjölskyldu sinni frá Tenerife til Íslands. Ómar ræddi stemninguna á Tenerife í morgunþættinum Ísland vaknar á K100 í gærmorgun.

Sagði hann fjölskylduna vel haldna, en þau voru á leið í flug til Gran Canaria þegar náðist í Ómar. Flug þeirra til Íslands féll niður á sunnudag vegna sandstormsins sem hefur plagað Kanaríeyjar síðustu daga.

„Ég kannaði allar flugvélar sem voru á leiðinni frá Tenerife síðustu tvo daga og það var ekki hægt að fá þrjú sæti þó að lífið lægi við til nánast allra borga sem boðið er upp á flug til,“ sagði Ómar. „Einu flugferðirnar sem hægt var að fara með til Íslands voru tengdar við Moskvu og ég var ekki alveg að nenna tuttugu tíma flugi til Íslands í staðinn fyrir fimm.“

Sagði hann að auðvelt væri að sjá á fólki á eyjunni að því væri ekki sama.

„Á endanum er þetta þannig að við munum öll fá þessa helvítis kórónuveiru. Þetta verður kvef fyrir okkur flest. Þetta drepur einhverja örfáa af þeim sem fá þetta. Ég held að þetta sé bara eitthvað sem við þurfum að sætta okkur við. Ég mun á endanum fá þetta rétt eins og þið en ég kýs að vera heldur á Íslandi þegar ég fæ þetta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Í loftinu núna
Endalaus tónlist