Opna Super Nintendo-heim í Universal

Heimur Super Mario og félaga er væntanlegur í Universal Studios …
Heimur Super Mario og félaga er væntanlegur í Universal Studios í Japan og Orlando. Ljósmynd/UniversalStudiosJapan

Heimur Super Mario og félaga hans úr Super Nintendo-heiminum er væntanlegur í skemmtigarðinn Universal Studios bæði í Osaka í Japan og Orlando í Bandaríkjunum á næstunni. Mun garðurinn reyna að líkja sem mest eftir Super Nintendo-tölvuleikjunum og mun til að mynda vera boðið upp á raunverulegt Mario Kart fyrir gesti. Munu gestir geta heimsótt þekktustu svæði Super Mario-heimsins, eins og Sveppa-konungsríkið (e. Mushroom Kingdom) og kastala prinsessunnar Peach og skrímslisins Bowser. 

Aðdáendur Super Nintendo-tölvuleikjanna munu brátt fá að upplifa að stíga …
Aðdáendur Super Nintendo-tölvuleikjanna munu brátt fá að upplifa að stíga inn í heim Super Mario í Universal Studios. Youtube/Nintendo

Líkt og vaninn er með þemagarða Universal-skemmtigarðsins verður auk þess boðið upp á alls kyns tæki og rússíbana, verslanir og veitingastaði í takt við þemað.

Garðurinn verður opnaður í Japan á árinu, rétt fyrir Ólympíuleikana í Tokyo í sumar að því er fram kemur á vef Newsweek. Garðurinn mun opna nokkuð seinna í Bandaríkjunum eða í janúar 2023. 

Undirbúningur fyrir opnun garðsins í Universal Studios í Japan er í fullum gangi en útvarpsstöð KFC birti meðal annars stutt myndband af undirbúningnum á Twitter-reikningi sínum. mbl.is