Bjó til lagalista fyrir eldra fólk í samkomubanni

Guðrún Árný fékk þá hugmynd að setja inn lagalista með …
Guðrún Árný fékk þá hugmynd að setja inn lagalista með undirspili eftir að hún tók þátt í að syngja fyrir eldra fólk fyrir utan Hrafnistu í síðustu viku.

Tónlistarkonan og tónmenntakennarinn Guðrún Árný Karlsdóttir setti saman lagalista með eigin píanóundirspili á gömlum íslenskum perlum til þess að fólk gæti sungið saman á elliheimilum. Ákvað hún að birta lagalistann í gær í tilefni af afmæli sínu sem er í dag. 

„Ég gef sjálfri mér það í afmælisgjöf að loksins lét ég verða af því að eyða nokkrum kvöldum í að spila inn undirspil og koma þeim vel frá mér, fyrir aðra að njóta,“ sagði hún í færslu með lagalistanum á Facebook.

Sagðist hún þar hafa ákveðið að gera undirspil við ýmis íslensk dægurlög sem eldra fólk þekkti til að söngvarar kæmust einir að syngja fyrir fólkið. Sagðist hún hafa fengið hugmyndina eftir að hópur tónlistarmanna, meðal annars hún sjálf, tók þátt að syngja og spila fyrir eldra fólk á Hrafnistu.

„Vonandi fara sem flestir að syngja fyrir sína nánustu, hvort sem það er í sama rými langt frá, gegnum snjalltækin, eða fyrir utan húsin þeirra (það fer vonandi að koma betra veður til þess). En það eru svo margir sem geta sungið. Syngjum fyrir ömmurnar og afana, frænkurnar og frændurna. Syngjum gömlu góðu lögin, kennum börnunum okkar þau líka,“ sagði Guðrún í færslunni.

Hægt er að nálgast lagalistann í spilaranum hér að neðan.

mbl.is