Stal matargjöf Tobbu Marínós til tengdapabba í sóttkví

Tobba Marínós.
Tobba Marínós. mbl.is/Íris Ann Sigurðardóttir

Fjölmiðlakonan Tobba Marínósdóttir, sem hefur upp á síðkastið einsett sér að fara með matargjafir til vina og vandamanna í sóttkví, lenti í því óheppilega atviki að matargjöf hennar til tengdaföður hennar var stolið af óprúttnum aðila. Tobba Marínós ræddi um atvikið í morgunþættinum Ísland vaknar í morgun. 

Sagði hún frá því að tengdaforeldrar hennar búi nú tímabundið í Hamraborginni þar sem þau þurftu að koma fyrr úr heimsreisu vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Neyddust þau til að leigja sér íbúð tímabundið þar sem þau höfðu leigt út sína eigin íbúð í þann tíma sem þau ætluðu að vera á ferðalagi.

„Þannig að ég ætlaði að vera almennileg og skutla einhverju til þeirra,“ sagði Tobba.  

„Ég er alin upp í Kópavogi og það er gott fólk hérna og ég hugsaði: Ég ætla nú ekki að detta í þann forarpytt að hugsa að ég geti ekki skilið eftir poka í tvær mínútur í Hamraborginni. Það væri aðeins of,“ sagði hún. Var um að ræða gjafapoka með handgerðu granóla og nokkrum bjórum sem Tobba setti við skilti við íbúðahótel tengdaforeldranna á meðan hún ræddi við tengdaföður sinn í gegnum símann. 

„Hann er bara að tala við mig í símann og hann segir: Já, ég sé skiltið. Ég rölti niður. Og á mínútum er pokinn tæmdur,“ sagði Tobba.

Glæpamaðurinn greinilega „prinsipp-maður“

„Þetta var alveg svona bleikur gjafapoki. Það sem mér finnst svo „spes“. Af hverju tók fíflið sem stal þessu ekki pokann?“ bætti hún við kímin í bragði og velti fyrir sér hvort ástæðan fyrir því hafi verið að hann hafi ekki viljað taka þátt í plastmengun eða hvort hann hafi einfaldlega ekki viljað ganga með bleikan gjafapoka. Komst hún þó að þeirri niðurstöðu að glæpamaðurinn væri greinilega „prinsipp-maður“ að einhverju leyti. 

„Ég hugsaði bara sem svo að tengdapabbi fær þá bara nýjan poka. Þessi einstaklingur sem fann sig knúinn til að stela handgerða granóla-inu mínu þarf greinilega á góðri næringu að halda því að heilinn í honum er eitthvað að fúna,“ sagði hún.

Hlustaðu á viðtalið við Tobbu Marínós í morgunþættinum Ísland vaknar.

mbl.is