Tónlistin snertir okkur nú sem aldrei fyrr

Auður gefur út svítuna „ljós“ með fjórum nýjum lögum á …
Auður gefur út svítuna „ljós“ með fjórum nýjum lögum á föstudaginn. Ljósmynd/Vignir Daði Hönnuður/Ágúst Elí

Tónlistarmaðurinn Auður gefur út glænýja tónlist, svítuna „ljós”, á föstudaginn næstkomandi þann 3. apríl. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá tónlistarmanninum.

„Verkið er bæði í senn eitt lag og skipt í fjóra sjálfstæða kafla. Formið svipar því til svítu í klassískri tónlist,” segir Auður í fréttatilkynningunni.

„Skynsamara fólk en ég segir að þetta myndi fá meira streymi seinna. Að ég ætti að bíða aðeins. Á tímum þar sem við megum ekki snertast þá snertir tónlistin okkur sem aldrei fyrr. Tónlistin hefur alltaf verið til staðar fyrir mig - líka þegar heimurinn virðist ætla að hrynja,“ segir hann.

Í tilkynningunni segir að í svítunni „ljós” komi fram hringrás ólíkra tilfinninga sem endurtaki sig í sífellu. Hringrás vanans sem við finnum okkur föst í. Losti og tilfinningin að kunna meta áráttuna sjálfa. Fékk Auður til liðs við sig sérvalið tónlistarfólk en Bríet og Drengur flytja með honum hvort um sig eitt lag á svítunni.

Tónlist Auðar hefur farið sigurför í tónlistarheiminum hér á landi upp á síðkastið en hann vann nýlega Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir lag ársins 2019: „Enginn eins og þú.” Einnig vann hann verðlaunin fyrir söngvara ársins og tónlistarflytjanda ársins. 

Auður vann til fjölda verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum 2019.
Auður vann til fjölda verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum 2019. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist