Heimsótti aldraða móður sína í kranabíl

Charley Adams lét kórónuveiruna ekki stoppa sig í finna leið …
Charley Adams lét kórónuveiruna ekki stoppa sig í finna leið til að heimsækja aldraða móður sína án þess að leggja hana í smithættu. Ljósmynd/Charley Adams/News5Cleveland

Það getur verið ofboðslega erfitt fyrir fjölskyldur að vera í sundur á tímum sem þessum og stundum getur verið erfitt að átta sig á því að það besta sem hægt er að gera fyrir ástvini akkúrat núna er að hitta þá ekki. Það er þó hægt að gera ýmislegt og það er svo fallegt að átta sig á því hvað það þarf lítið til þess að gleðja hjartað.

Ég fór til dæmis í búð fyrir ömmu mína um daginn. Þegar ég var komin fyrir utan heimili hennar hringdi ég í hana og hún kom út í stofuglugga. Ég stóð úti í garði og við spjölluðum saman á meðan við horfðum hvor á aðra og það var mögulega ein af mínum uppáhaldsstundum með henni. Stundin var svo ótrúlega einstök og ég fann svo sterkt hvað mér þótti ótrúlega vænt um hana.

Fleiri hugsa í skapandi lausnum, en Bandaríkjamaðurinn Charley Adams heimsótti móður sína á elliheimili í Ohio á vægast sagt óhefðbundinn máta. Núna eru öll elliheimili, eins og flestir vita, lokuð fyrir gesti. Móðir Charleys, kona að nafni Julia Adams, átti svolítið erfitt með að átta sig á aðstæðunum og hafði beðið son sinn að fara með sig út að borða án þess að skilja almennilega af hverju það væri ekki hægt. Charley starfar hjá verktakafyrirtæki og fékk hann lánaðan kranabíl til þess að geta heimsótt mömmu sína, sem býr á þriðju hæð á elliheimilinu, og spjalla við hana í gegnum gluggann. Eins og vænta mátti vakti þetta ómælda gleði hjá henni Juliu sem og syni hennar.

Svo dásamlegt! Það er í raun mjög verðmætt að eiga fólk í kringum sig sem maður saknar því það undirstrikar bara hvað við erum rík að ástvinum. 

Annars vona ég að þið eigið dásamlegan dag, farið vel með ykkur heima og gerið eitthvað sem lætur ykkur líða vel!

Dj Dóra Júlía finnur ljósa punktinn í tilverunni og flytur góðar fréttir reglulega yfir daginn í útvarpinu og á vefnum.

Fylgstu með á K100 og á k100.is

mbl.is