Greindist með veiruna fyrir tilviljun

Tómas sagðist njóta sín ágætlega í einangrun eftir að hafa …
Tómas sagðist njóta sín ágætlega í einangrun eftir að hafa greinst með sjúkdóminn COVID-19 en hann hefur varið tímanum meðal annars í að spila á gítar og syngja en hann hefur verið virkur á Facebook-síðunni „Syngjum veiruna í burtu“ þar sem einstaklingar deila myndböndum af sér að syngja. Ljósmynd: Samsett AFP Skjáskot

Knattspyrnudómarinn og sjónvarpsmaðurinn Tómas Mayer greindist með smitsjúkdóminn COVID-19 um síðustu helgi eftir að hafa verið valinn í slembiúrtak til að fara í skimun við sjúkdómnum. Segist hann hafa verið einkennalaus og kom greiningin honum því í opna skjöldu. Tómas ræddi upplifun sína í dagskrárliðnum „Óskalög sjúklinga“ í Síðdegisþættinum á dögunum.

„Ég ákvað bara að láta gott af mér leiða og fara í þetta og taka þátt í nafni vísindanna. Svo fæ ég bara símtal klukkan níu á laugardagsmorgun. Á símanum stendur ríkislögreglustjóri. Það er frábært að vakna við það,“ sagði Tómas kaldhæðnislega og bætir við að í framhaldi hafi honum verið tilkynnt að sýni hans hafi reynst jákvætt við veirunni. 

Sagðist hann sem betur fer aðeins hafa fjóra einstaklinga í sóttkví „á samviskunni“ enda hafi hann að sögn verið í hálfgerðri sjálfskipaðri sóttkví frá því hann dæmdi síðasta íþróttaleik sinn 7. mars.

Sagðist Tómas njóta sín ágætlega í einangruninni en hann hefur varið tímanum meðal annars í að spila á gítar og syngja en hann hefur verið virkur á facebooksíðunni „Syngjum veiruna í burtu“ þar sem einstaklingar deila myndböndum af sér að syngja. Söng hann og spilaði meðal annars lagið „Always on my mind“ og deildi með hópnum en hann sagði lagið tileinkað „okkar yndislega og frábæra heilbrigðisstarfsfólki“.

Valdi hann óskalagið „Það bera sig allir vel“ með Helga Björns í Síðdegisþættinum og þakkaði Helga sérstaklega fyrir framlag sitt í samkomubanninu.

Hlustaðu á viðtalið við Tómas í spilaranum hér að neðan.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist