Rauðvínið eins og kalt kaffi með COVID-19

Gísli Már Gíslason hagfræðingur þarf að verja páskunum einn á …
Gísli Már Gíslason hagfræðingur þarf að verja páskunum einn á farsóttarhóteli vegna COVID-19 greiningar. Ljósmynd/Gísli Már Gíslason

Hagfræðingurinn Gísli Már Gíslason sér fram á að þurfa að eyða páskunum einn en hann greindist með smitsjúkdóminn COVID-19 rétt fyrir síðustu helgi. Þarf hann að vera frá þremur ungum börnum; fimm ára, tveggja ára og einu undir eins árs, og eiginkonu sinni, sem hann segir að sé aðalhetjan í aðstæðunum. Gísli lýsti upplifun sinni í dagskrárliðnum Óskalög sjúklinga í Síðdegisþættinum í vikunni.

„Ég er bara sæmilegur eftir atvikum. Þetta verður vonandi ekki mikið verra úr þessu,“ sagði Gísli. „Ég er bara með svona mjög slæma flensu og svo er ég búinn að tapa lyktarskyninu, sem er alveg stórfurðurlegt,“ bætir hann við.

Segir hann að það að missa bragð- og lyktarskyn taki alla ánægjuna úr öllu.

„Um daginn ætlaði ég að fá mér eitt rauðvínsglas og fékk mér sopa og ég hugsaði að þetta gæti bara verið kalt kaffi,“ sagði hann og hló.

Sagðist Gísli reyna að sinna skrifstofuvinnu í einangruninni sem gangi þó misvel vegna veikindanna en hann kveðst verja tíma sínum aðallega í að horfa á sjónvarp og lesa fréttamiðla.

„Ég er að hakka mig í gegnum allt Netflix og ég les allar fréttir sem koma á fréttamiðla á Íslandi og svo ligg ég og bíð eftir næstu frétt.“

Óskaði hann eftir laginu Can't Feel My Face með Weeknd sem hann sagði afar lýsandi fyrir aðstæður.

Hlustaðu á viðtalið við Gísla í Síðdegisþættinum í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is