Eins og unglingur sem var of lengi heima hjá sér

Kára var sleppt í Ísafjarðardjúpi 2. maí en á honum …
Kára var sleppt í Ísafjarðardjúpi 2. maí en á honum er gervihnattasendir sem sendir boð um staðsetningu hans. Ljósmynd/Húsdýragarðurinn

Hringanóra-kópnum Kára, sem fannst í slippnum í Njarðvík og fékk umönnun í Húsdýragarðinum, hefur nú verið sleppt en Þorkell Heiðarsson líffræðingur og deildarstjóri hjá Fjölskyldu- og Húsdýragarðinum ræddi um ferðalag Kára í Síðdegisþættinum í gær.

Kári er nú kominn í nálægð við ísröndina á milli Íslands og Grænlands eftir að hafa verið sleppt innarlega í Ísafjarðardjúpi 2. maí en hægt er að fylgjast með ferðum Kára á vef Húsdýragarðsins. 

Kópurinn Kári, sem fæddist líklega vorið 2019, fannst í slippnum …
Kópurinn Kári, sem fæddist líklega vorið 2019, fannst í slippnum í Njarðvík. Var hann með bakteríusýkingu í augum og sýktur af sníkjuormum og var færður til ummönnunar í Húsdýragarðinum þar sem hann fékk viðeigandi meðferð og lyfjagjöf. Ljós­mynd/​Face­book-síða lög­regl­unn­ar

„Þetta er alltaf spurning um það hvenær náttúran á að fá að vera eins og hún á að vera en það koma upp tilfelli þar sem dýr eru orðin veik eða slösuð og lenda í mennsku umhverfi,“ sagði Þorkell aðspurður um það hvort Húsdýragarðurinn tæki yfirleitt að sér veik og slösuð dýr sem fyndust úti í náttúrunni. „Í þessu tilfelli ertu með kóp sem er farinn að skríða um í slippnum þar sem er verið að logsjóða og gera við skip og er sér og öðrum til ákveðinna vandræða. Þá bara getur þurft að grípa inn í og þá er viðkomandi dýr komið aðeins út fyrir það að verða bara að bjarga sér sjálft. Komið svona inn í okkar heim og það var gert í þessu tilfelli og var rétt mat í þessu tilfelli,“ sagði Þorkell.

Aðspurður sagði hann að það hafi ekki verið beint erfitt að sleppa Kára loks út í náttúruna eftir að hafa þurft að annast kópinn enda hafi verið kominn tími fyrir hann.

Kári og Þorkell rétt áður en kópnum var sleppt.
Kári og Þorkell rétt áður en kópnum var sleppt. Ljósmynd/Húsdýragarðurinn
Kári fær frelsi.
Kári fær frelsi. Ljósmynd/Húsdýragarðurinn

„Fyrst þegar hann kom hinn var hann svo slappur að hann var svolítið svona „baby“. Hann var mjög vingjarnlegur en svo eftir því sem hann hresstist varð hann minna vingjarnlegur. Það kom aftur upp hans eðlilega eðli og hann fór að vera með stæla og var farinn að bíta í mann og réðist mikið á skóna hjá mér. Þannig að þá má segja að þetta var eins og unglingur sem var of lengi heima hjá sér,“ sagði Þorkell kíminn í bragði og bætti við: „Þannig að það var ekki eftir neinu að bíða. Bara láta hann fara.“ 

Hlustaðu á alla frásögn Þorkels af kópnum Kára í spilaranum hér að neðan.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist