Læknir vildi gleðja Covid-sjúklinga

Dr. Rachel Easterwood, læknir í New York-borg, var sorgmædd yfir …
Dr. Rachel Easterwood, læknir í New York-borg, var sorgmædd yfir því hversu lítið væri hægt að gera til að gleðja Covid-sjúklinga á þessum átakanlegu tímum. Hún fann þó lausnina í gegnum tónlist. Skjáskot af myndskeiði

Læknir í New York borg hefur fundið fallega leið til þess að létta lund hjá sjúklingum á kvöldin. Læknirinn, dr. Rachel Easterwood, vinnur kvöldvaktir á Allen-spítalanum í Manhattan. Hún hafði verið sorgmædd yfir því hversu lítið væri hægt að gera til að gleðja Covid-sjúklinga á þessum átakanlegu tímum og velti því fyrir sér hvernig hægt væri að auðvelda þeim stundir með augnablikshuggun eða einhverju fallegu til þess að dreifa huganum. Eitt kvöldið þegar hún var í fríi frá vinnunni heyrði hún í vinkonu sinni frá Kaliforníu í gegnum Facetime.

Vinkona hennar er sellóleikari og spilaði Bach fyrir hana í símtalinu. Dr. Easterwood er fyrrverandi atvinnu-klarinettleikari og fann mikla huggun í tónlistinni frá vinkonu sinni. Henni datt þá í hug að heyra í tónlistarfólki sem hún þekkti vel og söfnuðu þau saman hópi af öðru tónlistarfólki til þess að leggja hönd á plóg og spila fyrir sjúklingana í gegnum Facetime á iPad eða iPhone á herbergjum sjúklinganna á spítalanum. Hún segir þetta hafa gert ótrúlega mikið fyrir þá og veitt þeim mikla hamingju á erfiðum stundum.

Það er svo ótrúlega fallegt þegar að fólk stendur saman og hjálpast að með því að skapa eitthvað eins magnað og tónlist. Tónlistin getur haft stórkostleg áhrif á sálina og getur að minnsta kosti í smá stund dimmu í dagsljós breytt.

DJ Dóra Júlía finn­ur ljósa punkt­inn í til­ver­unni og flyt­ur góðar frétt­ir reglu­lega yfir dag­inn í út­varp­inu og á vefn­um.

mbl.is