Fylla mannlausa íþróttavelli með nýrri tækni

Guðjón Guðjónsson, framkvæmdastjóri OZ, segir hugbúnaðarfyrirtækið nú vinna stíft að …
Guðjón Guðjónsson, framkvæmdastjóri OZ, segir hugbúnaðarfyrirtækið nú vinna stíft að því að þróa tækni sem geti látið mannlausar áhorfendastúkur á íþróttaleikjum líta út fyrir að vera fullar. mbl.is/Kristinn Magnússon Ljósmynd/Unsplash

Íslenska hug­búnaðarfyr­ir­tækið OZ vinnur nú stíft að því að þróa nýja tækni sem getur látið mannlausar áhorfendastúkur líta út fyrir að vera fullar af áhorfendum. Notuð er bæði gervigreind, róbotar og rauntímagreiningartækni til að framkvæma þennan sýndarveruleika og fylgja flæði íþróttaleikja. Er markmiðið með tækninni meðal annars það að áhorfendur, sem eiga miða á leikina, geti sést á leikvanginum og tekið þátt líkt og þeir væru raunverulega á staðnum. Guðjón Már Guðjónsson stofnandi OZ staðfesti þetta í viðtali við Síðdegisþáttinn á K100 í vikunni.

Sagði hann að OZ hefði hafið samstarf við íslenska tæknibrellufyrirtækið RVX Productions við þróun tækninnar, en RVX sá meðal annars um tæknibrellur í stórmyndunum Everest og Gravity.

Oz byrjaði að sögn hans að þróa tæknina árið 2016 en mikilvægi verkefnisins jókst til muna eftir að heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á með þeim afleiðingum að íþróttalið munu að öllum líkindum þurfa að spila á nánast mannlausum völlum. Fyrirtækið er nú að kynna tæknina fyrir fótbolta- og körfuboltadeildunum í Bandaríkjunum en Guðjón kveðst vongóður um að tæknin verði komin í loftið í ágúst eða september, og jafnvel fyrr. 

Vildu að Pollamótið gæti litið út eins og meistarakeppnin

„Eitthvað þarf maður nú að gera, það er ástand,“ sagði Guðjón sem segir að tæknifyrirtækið hafi mótað þessa sýn fyrir mörgum árum með það að markmiði að láta Pollamótið, sem haldið er í Vestmannaeyjum, líta út eins og meistarakeppnina í knattspyrnu. Sagðist hann hafa vitað að það gæti tekið fyrirtækið um 4-5 ár að framkvæma þennan draum.

„Við byrjuðum á að setja upp gervigreindardeild hjá okkur. Við vissum að við þyrftum að leysa hluta af þessu með gervigreind og annan hluta með því að nota róbota. Við tókum þetta skref fyrir skref,“ sagði Guðjón sem segir fyrirtækið hafa verið heppið að fá styrk frá Evrópusambandinu. 

„Þetta er búið að vera heljarinnar mikið ferðalag og svo núna í þessum heimsfaraldri þegar  þessi blessaði vírus kemur allt í einu, þá vantar 45 þúsund manns upp á að stóru deildirnar geti litið þokkalega vel út í sjónvarpi,“ sagði hann.

Guðjón sagði að eftir að kórónuveirufaraldur skall á séu þeir sem koma að íþróttaviðburðum í vandræðum vegna tómra stúka og einnig vegna þeirra aðdáenda sem hafa keypt „Season Pass“, dýra miða sem gilda yfir allt tímabilið, meðal annars til að fá ákveðin sæti í stúkunni til að horfa á „sitt lið“.

Stuðningsmenn íþróttaliða gætu raunverulega sést í áhorfendastúkum leikja með tækninni …
Stuðningsmenn íþróttaliða gætu raunverulega sést í áhorfendastúkum leikja með tækninni sem OZ er nú með í þróun. AFP

„Við gerum þetta þannig að þú getur raunverulega skráð þig inn fyrir leik og valið þitt sæti. Ef þú ert „Season Pass“-handhafi þá átt þú þitt sæti og þá birtist þú bara í stúkunni. Þú skráir þig inn í gegnum app og velur þér hálfgerðan „avatar“ og ef þú ert til dæmis „Púlari“ þá ertu í þínum litum og getur verið með andlitsmálningu og skemmtilegheit. Þegar leikurinn er að byrja byrjar þú bara að gera það sem þú gerir: Öskra, syngja og allt þetta. Þetta „mixast“ allt inn í útsendinguna,“ útskýrir Guðjón. „Þú getur hrist símann og hreyft þinn „avatar“. Þetta er svolítið eins og í „Science fiction“-bíómynd en við erum að reyna að gera þetta eins heiðarlegt og hægt er.“

Sagði Guðjón Evrópulönd oft vera minna opin en Bandaríkin fyrir nýsköpun sem þessari en vegna kórónuveirufaraldursins væru tímarnir breyttir.

„Nú er svo mikið ástand að það er allt leyfilegt og það þarf að prófa allt til að rífa upp stemninguna, fá fólk til að brosa og koma upplifuninni aftur til skila. Þeir sem eru búnir að vera borgunaraðilar eins og „sponsarar“ og aðrir eru í stökustu vandræðum að gera þetta skemmtilegt og spennandi þegar það vantar 40 þúsund manns á leikinn,“ sagði hann.

Hlustaðu á Guðjón lýsa þessari tækni í Síðdegisþættinum á K100 í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is