Langerfiðast að sleppa súkkulaðinu

„Ég elska súkkulaði. Súkkulaði finnst mér bara vera ástæða þess …
„Ég elska súkkulaði. Súkkulaði finnst mér bara vera ástæða þess að við erum á þessari jörð,“ segir tónlistarkonan Greta Salóme sem ætlar að sleppa því að borða sykur í átta vikur. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Tónlistarkonan Greta Salóme hefur nú verið í fjóra daga í sykurbindindi en hún stefnir á að sleppa sykri í átta vikur í sumar. Hún stofnaði facebookhópinn „Sykurlaust sumar“ til að veita sér aðhald í bindindinu en þegar hafa yfir 1.500 meðlimir bæst í hópinn. Greta ræddi um sykurbindindið í morgunþættinum Ísland vaknar á K100 í gær.

„Fyrir mér var þetta bara að taka út sætindin og skerpa svolítið á þessu. Það eru greinilega margir í sömu pælingum því það eru 1.500 manns komnir á vagninn,“ sagði tónlistarkonan í þættinum.

Pepsi Max fær að vera inni

Sagði hún að það erfiðasta við bindindið væri að þurfa að sleppa súkkulaði.

„Ég elska súkkulaði. Súkkulaði finnst mér bara vera ástæða þess að við erum á þessari jörð,“ sagði Greta sem kveðst þó ekki ætla að sleppa Pepsi max úr mataræðinu enda sé drykkurinn sykurlaus og hún sjálfgreindur Pepsi max-fíkill.

„Það þyrfti að leggja mig inn á Vog ef það ætti að taka það út líka,“ sagði Greta. „Ég hafði hugsað mér að lifa þetta covid-ástand af þannig að ég ætla ekki að taka Pepsi max út,“ sagði hún.

Greta sagðist halda að margir, þar á meðal hún sjálf, hefðu sleppt fram af sér beislinu í samkomubanninu og haft það „svolítið kósí“ á meðan ræktin var lokuð.

„Stemmari“ fyrir sykurbanni

„Það eru greinilega rosa margir sem langar að taka svona „skurk“ þegar hlutirnir fara aðeins meira af stað en þeir hafa verið að gera. Fólk er búið að hafa tíma til að staldra við og horfa inn á við. Ég held það allavega og það er greinilega „stemmari“ fyrir þessu akkúrat núna,“ sagði Greta. „En ég spái því að það verði talsvert minni stemning eftir svona tíu daga,“ bætti hún við og uppskar hlátur í stúdíóinu.

Hlustaðu á viðtalið við Gretu í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is