Sjáðu sigurlagið í gervigreindar-Eurovision

Ástralar hafa enn ekki unnið Eurovision síðan landið fékk fyrst …
Ástralar hafa enn ekki unnið Eurovision síðan landið fékk fyrst að taka þátt í keppninni fyrir sex árum. Landið getur þó gortað sig af því að hafa unnið í gervigreindar-Eurovision. Ljósmynd: Samsett Skjáskot af myndskeiði Getty Images

Ástalía bar sigur úr býtum í söngvakeppni þar sem gervigreind er notuð við lagasmíði í vikunni. Bæði texti og undirspil sigurlagsins, Beautiful the World, var samið með gervigreindartækni, með því að búa til algóriþma úr eldri eurovisionlögum og blanda við dýrahljóð. 

Söngvakeppnin, sem kynnt var á opinberri vefsíðu Eurovision, er innblásin af Eurovision-söngvakeppninni en hollenska útvarpsstöðin VPRO skipulagði keppnina eftir að Holland vann Eurovision í fyrra. Greint er frá þessu á fréttavef ABC.

Markmið keppninnar var að rannsaka sköpunarmátt gervigreindar og áhrif slíkrar afurðar á fólk.  

Þrettán lönd tóku þátt í keppninni en Ástralía bar að lokum sigur út býtum með lagi sínu Beautiful the World sem inniheldur meðal annars hljóðbrot úr áströlskum dýrum eins og kóalabjörnum, kookaburra-fuglum og tasmaníudjöflum. Sagðist ástralska liðið vilja senda jákvæð skilaboð og von um að náttúran myndi ná sér eftir gróðureldana sem geisuðu í Ástralíu á árinu og ollu miklum skaða.

Lagið sjálft er, eins og áður kom fram, afurð gervigreindartækni en ástralski hópurinn mataði tölvu á eurovisionlögum og dýrahljóðum. Úr varð sigurlagið en gervigreindin sá bæði um að semja textann og undirspil lagsins með því að notast við algóriþma. Lagið var valið með atkvæðagreiðslu en bæði almenningur og sérfræðingar í gervigreind fengu að kjósa í keppninni. Þýskaland lenti í öðru sæti í keppninni og Holland í því þriðja.

Hægt er að hlusta á sigurlagið hér að neðan.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist