Leiða landsmenn í jóga víða á landinu

Ljósmynd/Unsplash

Hrós dagsins fá þær Andrea Carlsdóttir og Íris Heiðrúnardóttir. Þær stöllur eru með ótrúlega skemmtilegt verkefni í gangi sem heitir Jógabíllinn, þar sem þær keyra landshorna á milli núna í maí, stoppa í mismunandi bæjarfélögum og leiða landsmenn í gegnum jógatíma ásamt því að leggja áherslu á öndunaræfingar, slökun og hugleiðslu.

Allir eru velkomnir í tímann og þær rukka ekki neitt heldur eru frjáls framlög. Ég hef farið í jógatíma hjá þeim báðum og eru þær báðar dásamlegir jógar.

Á tímum sem þessum er ótrúlega mikilvægt að geta andað djúpt og staldrað aðeins við og jógað hjálpar svo sannarlega við það, enda hefur undirrituð verið háð því að stunda jóga undanfarin ár. Það er ótrúlega vel gert hjá þeim að deila kunnáttu og visku með svona mörgum og hvet ég alla landsmenn eindregið til þess að fylgjast með þessu spennandi verkefni og láta sjá sig í jógatíma þegar Jógabíllinn er nálægt ykkur! Verkefnið má finna á Facebook og Instagram undir nafninu Jógabíllinn. Namaste!

Andrea Carlsdóttir mætti í stúdíóið á K100 í morgunþáttinn Ísland vaknar á dögunum og ræddi um verkefnið en viðtalið má sjá í spilaranum hér að neðan.

mbl.is