„Fallegasta gjöf sem ég hef nokkurn tímann fengið“

Nágrannakona Dóru Júlíu gladdi hana með því að gefa henni …
Nágrannakona Dóru Júlíu gladdi hana með því að gefa henni gullfallegan handgerðan kjól sem hún hafði sjálf prjónað.

Mig langar til þess að hrósa nágrannakonu minni í þessum ljósa punkti, fyrir það að vera bæði yndisleg og einstök. Þegar ég flutti fyrst í íbúðina mína lagði ég mig lítið fram við að kynnast fólkinu í kring og fannst það kannski að einhverju leyti algjör óþarfi. Ég átti nóg af vinum og spáði lítið í annað. Núna í covid-ástandinu hef ég eytt meiri tíma heima en nokkru sinni fyrr, og oft sest út í garð þegar sólin hefur látið sjá sig.

Þessi dásamlega kona var oftar en ekki á sama tíma og ég úti í garði. Fyrst voru samskipti okkar lítil sem engin en einn góðan veðurdag vildi svo heppilega til að við hófum að spjalla saman. Sagan hennar er merkileg og spennandi en flutti hún hingað til Íslands fyrir 15 árum. Það er svo skemmtilegt að sjá hvað lífið er fullt af fjölbreyttum einstaklingum með gjörólíkar sögur en einhverra hluta vegna getur maður verið allt of gjarn á að hanga með sínum hópi og lítið lagt upp úr því að kynnast öðrum. Þetta er manneskja sem undir eðlilegum kringumstæðum væri ósennilegt að ég myndi kynnast vel og mér finnst ég svo heppin að hafa kynnst henni, því það er fátt sem kennir manni meira og dýpkar mann sem einstakling en að umkringja sig fjölbreyttum hópi fólks.

Núna um helgina sátum við úti að spjalla og hún segir mér að bíða í smá stund á meðan hún skýst inn í íbúðina sína. Mínútu seinna kemur hún út með ótrúlega fallegan kjól sem hún hafði prjónað og vildi gefa mér. Þetta er einhver fallegasta gjöf sem ég hef nokkurn tímann fengið og veitti hún mér svo ótrúlega mikla hjartahlýju. Ég vona að ég geti á einhvern hátt glatt nágrannakonu mína eins og hún gladdi mig og er ég alveg óendanlega þakklát fyrir þessa nýju vináttu.

Kjóllinn er ótrúlega fallegur og vandaður.
Kjóllinn er ótrúlega fallegur og vandaður.

 DJ Dóra Júlía finn­ur ljósa punkt­inn í til­ver­unni og flyt­ur góðar frétt­ir reglu­lega yfir dag­inn í út­varp­inu og á vefn­um í samstarfi við Íslatte.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist