Svitnaði við að heyra öskrin

Gréta María og Ísak safna nú fæðingarsögum feðra sem þau …
Gréta María og Ísak safna nú fæðingarsögum feðra sem þau ætla að gefa út í bók. Ljósmynd/K100 Unsplash

„Ég veit alveg hvað ég upplifði sem konan sem var að fæða barnið en hvað upplifðir þú? Ég væri til að heyra þína sögu,“ segir Gréta María Birgisdóttir ljósmóðir, sem stendur fyrir verkefninu Fæðingarsögur feðra ásamt sambýlismanni sínum Ísaki Hilmarssyni. Parið mætti í morgunþáttinn Ísland vaknar í morgun og ræddi um verkefnið. 

„Eins og með okkur tvö, við vorum á sama staðnum allan tímann. En þetta er tvennt ólíkt af því að sem kona í fæðingu er maður bara upptekin. Maður er bara í vinnu að koma þessu barni út og hinn aðilinn er bara að fylgjast með og reyna að hjálpa,“ sagði Gréta.

Ísak, sem átti sjálfur hugmyndina að verkefninu, ræddi sína eigin fæðingarsögu í þættinum, en þau Gréta eignuðust dóttur í júní 2017. 

„Við erum þarna að staulast inni á bílastæðinu, þið sjáið fyrir ykkur fallega sumarnótt, það er kyrrt og svo allt í einu heyrast mikil öskur úr einhverri stofunni þarna. Við erum fyrir utan fæðingarvaktina og ég er að reyna að styðja Grétu. Við stoppum þarna því að þetta eru alveg mikil öskur. Ég hugsa bara, erum við að fara í þetta og þá heyrist bara í Grétu: Þarna er barn að koma í heiminn. Ég svitnaði og reyndi að sýna ekki neitt,“ sagði Ísak.

„Þegar það var stutt í að barnið kæmi hjá okkur, þá var allt að gerast og mikið action. Þá stoppaði Gréta líka allt í einu í rembingnum. Það kom bara eins og dómarinn hefði flautað leikhlé: Er ekki allt í lagi með þig?“ sagði hann og uppskar mikinn hlátur í stúdíóinu. „Þið hefðuð átt að sjá svipinn á ljósmóðurinni þá,“ bætti hann við.

Ísak ásamt dóttur sinni.
Ísak ásamt dóttur sinni. Ljósmynd/Aðsend

Parið stefnir á að gefa út bók með nafnlausum fæðingarsögum feðra og óskar eftir því að feður sendi þeim sögur sínar. Vonast þau til að sögurnar eigi eftir að geta hjálpað feðrum framtíðar. 

Hægt er að hafa samband við þau í gegnum facebook-síðu þeirra eða með því að senda á netfangið faed­ing­ar­sog­ur­[email protected].

Hlustaðu á allt viðtalið við Grétu og Ísak í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is