Neitaði að rembast þar til Sigurður var kominn

Ljósmyndir/Aðsendar

Samfélagsmiðlastjarnan, söngkonan og leigubílstjórinn Hrefna Líf Ólafsdóttir eignaðist dótturina Heklu Ísold Sigurðardóttur fyrir tæpum sex vikum síðan á Landspítala, 6. apríl, á hápunkti kórónuveirufaraldurs hér á landi. Kærasti og barnsfaðir hennar, Sigurður Gunnar Guðmundsson, rétt náði að koma inn á fæðingarstofuna til að verða vitni að fæðingu dóttur sinnar en vegna takmarkana til að vernda starfsfólk og sjúklinga Landspítalans voru aðstandendur ekki velkomnir á spítalann fyrr en virk fæðing væri komin í gang. 

Fæðingin gekk hratt og vel fyrir sig þrátt fyrir ástandið …
Fæðingin gekk hratt og vel fyrir sig þrátt fyrir ástandið og Hrefna kveðst hafa fengið góðan stuðning frá starfsfólki.

Hrefna lýsti fæðingarsögu sinni fyrir blaðamanni K100.is en hún segist hafa náð að undirbúa sig vel undir þetta undarlega ástand meðal annars með því að nota hugræna atferlismeðferð.

Verra ef það vantaði starfsfólk með rétta menntun

„Ég náði að tala við manninn minn um þetta og átta mig á því að þetta ástand væri um allan heim. Að þetta væri ekki ósanngjörn staða sem ég væri í. Ég væri miklu meira til í að heilbrigðiskerfið héldist smitlaust í staðinn fyrir ég fengi að hafa makann alla fæðinguna. Ég horfði þannig á það,“ sagði Hrefna en stuttu áður en hún fæddi kom upp smit á fæðingardeildinni þegar faðir nýbura greindist með veiruna á sængurlegudeild og nokkrir heilbrigðisstarfsmenn þurftu að fara í sóttkví í kjölfarið. 

„Ég hugsaði bara hvað það væri skelfilegt ef það væri ekki nógu mikið af starfsfólki með rétta menntun ef það kæmi eitthvað upp á,“ segir Hrefna sem sjálf þurfti að fara í bráðakeisara þegar eldra barn hennar, sonurinn Jökull Dreki, fæddist. 

„Leiðinlegast fyrir manninn minn að missa af“

„En þetta var auðvitað leiðinlegt að vera ein í þessu. Maður varð alveg smeykur. Ég datt alveg í að mér fannst þetta ótrúlega leiðinlegt. En mér fannst þetta leiðinlegast fyrir manninn minn að missa af ef ég þyrfti að vera lengi,“ sagði Hrefna. 

Sigurður Gunnar Guðmundsson heldur á nýfæddri dóttur sinni.
Sigurður Gunnar Guðmundsson heldur á nýfæddri dóttur sinni.

Hún segir að loks þegar hún var komin með fulla útvíkkun hafi hún fengið að hringja í Sigurð sem hafi verið átta mínútur á leiðinni. Dóttirin mætti svo í heiminn aðeins tuttugu mínútum eftir að hann kom inn á fæðingarstofuna.

„Ljósan var búin að segja mér að ég mætti hringja í manninn minn og mætti byrja að rembast. Þá var ég komin með fulla útvíkkun og ég bara neibb. Ég ætla að bíða eftir manninum mínum. Mér fannst eins og hann þyrfti að vera þarna og mig langaði að gera þetta saman. Hann var á leiðinni og þá fannst mér eins og ég þyrfti að bíða eftir honum þrátt fyrir að ljósan segði mér að ég yrði nú að rembast.“ 

Hrefna segir að Sigurður hafi fengið að vera með henni og nýfæddri dóttur þeirra þar til mæðgurnar voru færðar á sængurlegudeild þar sem sem aðstandendur máttu ekki fara.

Lítið spáð í andlegri líðan feðranna

„Ég kveið því mikið að þurfa að vera ein með nýfætt barn fyrstu nóttina. Mér fannst það mjög erfitt þegar allir voru farnir. Klukkan var orðin átta eða níu  um kvöldið og ég var ein inni í herbergi með glænýju barni sem ég þekkti ekki neitt. Ég hringdi myndsímtal í manninn minn og þá fyrst kom hvað mér fannst þetta ótrúlega leiðinlegt. Að ég væri bara eins og ég væri einstæð og ein að standa í þessu og hann bara heima með símann að horfa því hann mátti ekki vera með. Að hann væri að missa af og við værum að missa af fyrsta sólarhringnum saman,“ segir Hrefna. „En þetta var ekkert sem setti mig á hliðina. Það voru allir að ganga í gegnum þetta sama í heiminum,“ bætir hún við.

Aðspurð segir Hrefna að Sigurður hafi verið svolítið svekktur yfir ástandinu.

„Mér fannst í öllum fréttaflutningi og í öllu sem kom fram á þessum fundum að það var svolítið eins og pabbar væru bara aukahlutir. Þeir eru ekki að koma út barninu og þurfa ekki líkamlega að vera þarna og konur hér áður fyrr gerðu þetta bara einar. En ég held að hann hafi orðið pínu svekktur og fundist pínu eins og hann skipti engu málu. Samt ekki þannig að hann ætti einn að fá eitthvað umfram aðra en það var svolítið svoleiðis því þetta var ferli sem við vorum búin að ganga í gegnum saman en svo allt í einu skiptir hann engu máli,“ segir Hrefna og bætir við að hún hafi haft það á tilfinningunni að lítið hafi verið spáð í andlegri líðan feðranna. 

Vandræðalegt að vilja vera viðstaddir

„Það er eins og það hafi aldrei verið rætt, eins og það væri svona „tabú“. Ég held líka að margir karlmenn veigri sér við því að tala um það og finnist vandræðalegt að vilja vera viðstaddir og vilja styðja konuna sína. Það er líka leiðinlegt að hann sitji einhvers staðar einn vitandi að mér líður líkamlega illa og er að ganga í gegnum fæðingu og hann er bara að bíða eftir að fá símtal,“ segir hún. 

Hekla Ísold fæddist með hvelli í kórónuveirufaraldri þann 6. apríl.
Hekla Ísold fæddist með hvelli í kórónuveirufaraldri þann 6. apríl.

Margar konur mjög hræddar út af ástandinu

Hrefna kveðst aðspurð hafa fengið mikið af fyrirspurnum frá þunguðum konum á samfélagsmiðlum og segir að margar hafi verið mjög stressaðar. 

„Ég fékk svo mikið af skilaboðum og einlægum póstum frá stelpum sem voru bara mjög hræddar. Það eru svo margar sem eru kannski með þunglyndi eða eru greindar með kvíða eða eitthvað svoleiðis og voru bara að „panikka“. Mér fannst mjög margar vera bara mjög hræddar við fæðinguna út af þessu,“ segir Hrefna. Hún segir sjálf að það sem hafi hjálpað henni hafi meðal annars verið það að hún hafði áður eignast barn og því vitað við hverju væri að búast en þær konur sem væru frumbyrjur virtust eiga erfiðara með ástandið. 

Hekla Ísold ásamt einum af „bræðrum“ sínum, bolabítinum Klaka.
Hekla Ísold ásamt einum af „bræðrum“ sínum, bolabítinum Klaka.

„Ef ég hefði verið að gera þetta alveg í fyrsta sinn þá hefði ég örugglega verið mjög lítil í mér,“ segir Hrefna. „Ég náði bara að taka hugræna atferlismeðferð á þetta og róa mig niður.

Ég bara tók ákvörðun, af því að ég get verið mjög kvíðin og dottið langt niður í þunglyndi og svona. Ég hugsaði bara að ef þetta hefði bara verið Landspítalinn við Hringbraut sem hefði verið með einhverjar takmarkanir þá hefði maður kannski verið leiður. En þetta er heimsfaraldur og það er ekkert sem maður getur gert. Maður er bara feginn að heilbrigðiskerfið hélst gangandi. Ég var alla vega rosalega þakklát fyrir það.“ 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist