Fékk gamla númerið hjá Musk og fær varla frið

Lyndsay Tucker, 25 ára húðvöruráðgjafa, var úthlutað gamla símanúmerinu hans …
Lyndsay Tucker, 25 ára húðvöruráðgjafa, var úthlutað gamla símanúmerinu hans Elon Musk fyrir tilviljun. AFP

Lyndsay Tucker, 25 ára húðvöruráðgjafi hjá snyrtivöruversluninni Sephora, hefur undanfarin ár fengið urmul skilaboða sem ætluð eru athafnamanninum og stofnanda Tesla og SpaceX, Elon Musk. Er ástæðan sú að símanúmerið sem henni var úthlutað fyrir nokkrum árum tilheyrði eitt sinn milljarðamæringnum fræga. Greint er frá þessu á fréttavef CNET. 

Tucker sagðist í samtali við CNET fá þrjú símtöl eða skilaboð ætluð Musk á hverjum degi en sagði áreitið aukast í hvert sinn sem nýjar fréttir eða slúður um hann kæmi í umræðuna. 

Tucker hefur fengið fjölda undarlegra skilaboða sem eru ætluð Musk.
Tucker hefur fengið fjölda undarlegra skilaboða sem eru ætluð Musk. Skjáskot

„Ég gerði fyrst ráð fyrir að ég hefði gert eitthvað af mér. Það var mikill léttir að vita að þeir væru ekki að leita að mér,“ sagði Tucker. 

Tucker fékk símanúmerið fyrir tilviljun eftir að Musk losaði sig við það en þá hafði númerinu verið lekið á veraldarvefinn og var þekkt fyrir að tilheyra Musk.

Musk var sjálfur undrandi þegar hann heyrði af vandræðum Tuckers en hann svaraði fyrirspurn NPR um símanúmerið á þessa leið: „Vá. Þetta símanúmer er svo gamalt! Ég er gáttaður að það sé enn þarna úti einhvers staðar.“

Skjáskot

Tucker reynir að sögn yfirleitt að fylgjast vel með fréttum af Musk til að búa sig undir áreitið sem fylgir umræðunni. 

„Alltaf þegar ég sé nafnið hans koma fram í fréttum hugsa ég, Jæja, nú þarf ég að kynna mér hvað hann sagði því að líkur eru á því að einhver er að fari að senda mér skilaboð eða hringja í mig út af því,“  sagði Tucker í samtali við NPR. 

mbl.is