Kjúklingasalatið sem sælkerarnir elska

Ljósmynd/Bon Appetit

Þetta salat er algjörlega frábært og einstaklega bragðgott. Við mælum með því hvaða tíma dags sem er enda fátt betra en að fá sér létta og kjarngóða máltíð sem leikur við bragðlaukana.

Kjúklingasalatið sem sælkerarnir elska

 • 140 g brauðteningar, helst heimagerðir
 • 10 msk. extra-virgin ólífuolía
 • 2 vorlaukar
 • Sjávarsalt og pipar, við notum Norðursalt
 • 2 msk. sítrónusafi
 • 2 msk. ókryddað hrísgrjónaedik
 • 1 msk. Dijon sinnep
 • 1 msk. majónes, við notum Hellmann’s.
 • 1 heill kjúklingur, rifinn niður, við notum Ali kjúkling.
 • 6 radísur, skornar í fleiga
 • 1 salathaus, takið blöðin í sundur
 • 1 avókadó, tekið úr hýðinu og skorið niður

Aðferð:

Hitið ofninn í 220 gráður. Rífið brauðið niður og veltið upp úr þremur matskeiðum af olíu. Kryddið með salti og pipar. Setjið á ofngrind og bakið í 8-12 mínútur. Leyfið brauðteningunum að kólna.

Skerið vorlaukinn í sundur með því að skera hvíta hlutann frá hinum græna. Skerið hvíta hlutann fínt niður. Hitið 1 msk. af olíu á pönnu. Saxið græna hlutann niður og steikið á pönnunni uns hann fer að brúnast á hliðunum eða í þrjár mínútur. Setjið í skálina með hvíta vorlauknum. Blandið sítrónusafanum, ediki, sinnepi og majónesi saman við, kryddið með salti og pipar. Pískið afganginn af olíunni rólega saman við.

Hellið helmingnum af dressingunni í litla skál og leggið til hiðar. Bætið kjúklingnum, radísunum og brauðteningunum saman við afganginn af dressingunni og blandið saman.

Raðið salatinu og hálfu avókadói á disk og saltið og piprið. Sullið 3 matskeiðum af dressingu yfir og setjið kjúklingasalat ofan á. Skreytið með afgangnum af avókadóinu, kryddið með salti og pipar og sullið afgangnum af dressingunni yfir.

Uppskrift: Bon Appetit

mbl.is