Einn frægasti veitingastaður New York lokar

Ljósmynd/The Spotted Pig

Einn frægast veitingastaður New York, The Spotted Pig, hefur lokað dyrunum eftir fimmtán ára rekstur og eru margir undrandi yfir endalokum þessa heimsfræga staðar.

Í gær sendi annar eigandi staðarins, Ken Friedman, frá sér yfirlýsingu þar sem hann harmar hvernig fór. Í yfirlýsingunni kom fram að honum hefði ekki tekist að skapa vinnuumhverfi sem væri öruggt og þetta væri það sorglegasta sem hann hefði þurft að gera.

Lokunin fylgir í kjölfarið á dómsátt sem Friedmann gerði við saksóknara í New York vegna ásakana um kynferðislega áreitni og mismunun á vinnustað. Hluti samkomulagsins var að Friedman samþykkti að greiða 240 þúsund dali auk 20 prósenta af hagnaði veitingastaðarins undanfarinn áratug til 11 fyrrverandi starfsmanna sem höfðu ásakað hann um kynferðislega áreitni, mismunum og hefndaraðgerðir að því er fram kemur í New York Times.

Meðeigandi Friedman, matreiðslumeistarinn April Bloomfield, hefur reynt eftir bestu getu að halda því fram að hún hafi ekki haft vitneskju um gjörðir Friedman en viðurkenndi að lokum að hún hefði ekki gert nóg til að stöðva hann.

Ljósmynd/The Spotted Pig
mbl.is