Arna kynnir til leiks splunkunýja vöru

Þær gleðifregnir berast að vestan að Arna sé að koma með bragðbætta AB mjólk í verslanir. Aðdáendur fyrirtækisins munu eflaust taka þessari nýjung vel sem og þeir sem hafa látið sig dreyma um laktósafrítt AB-líf.

Að sögn Örnu Maríu Hálfdánardóttur, sölu- og markaðsstjóra Örnu, er mikil ánægja með útkomuna. „Frá því að við hófum framleiðslu haustið 2013 hefur hreina AB-mjólkin okkar alltaf verið ein vinsælasta söluvaran okkar og höfum við verið virkilega ánægð með hana.

Við ákváðum að prófa okkur aðeins áfram með hana og úr varð að við höfum hafið framleiðslu á þremur tegundum af bragðbættri AB-mjólk sem nú bætast í AB-mjólkurlínuna okkar. Nýju bragðtegundirnar koma í 1 l fernum og eru að sjálfsögðu, eins og allar okkar vörur, laktósafríar!“

Nýju tegundirnar eru:
AB-mjólk með bláberjabragði
AB-mjólk með jarðarberjabragði
AB-mjólk með vanillubragði

Dreifing er hafin og ættu þær að vera komnar í flestallar verslanir öðrum hvorum megin við helgina.

Arna María Hálfdánardóttir, sölu- og markaðsstjóri Örnu.
Arna María Hálfdánardóttir, sölu- og markaðsstjóri Örnu. Kristinn Magnússon
mbl.is